„Mjög alvarlega slasaður“

Aðgerðum lauk skömmu fyrir klukkan sex í kvöld.
Aðgerðum lauk skömmu fyrir klukkan sex í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír fóru með sjúkrabíl eftir brunann sem upp kom í iðnaðarhúsnæði við Funahöfða í Reykjavík í dag. Einn þeirra er alvarlega slasaður. Eldurinn kom upp í herbergi en í húsnæðinu búa rúmlega 20 manns í leiguherbergjum. 

Slökkvilið lauk aðgerðum rétt fyrir klukkan sex og lögreglan hefur tekið við vettvanginum til rannsóknar. 

Að sögn Sigurjóns Hendrikssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, gekk slökkvistarf vel eftir að aðgerðir hófust.  

28 tóku þátt í aðgerðum 

„Bruninn sjálfur var staðbundinn í einu herbergi en logaði mjög glatt. Þrír voru fluttir með sjúkrabíl. Íbúi í þessu herbergi var fluttur á slysadeild og hann var mjög alvarlega slasaður, með verulega mikla brunaáverka,“ segir Sigurjón. Að sögn hans var a.m.k. annar hinna mannanna einnig með brunaáverka. 

Sigurjón segir það hafa tekið rétt um 20 mínútur að slökkva eldinn en ekki er hægt að segja til um eldsupptök fyrr en lögregla hefur rannsakað vettvanginn. Í heild tóku um 28 í aðgerðunum og þar af voru 20 slökkviliðsmenn. 

„Það mátti ekki miklu muna að eldurinn hefði náð út úr þessu herbergi. Það var náttúrlega gríðarlegur reykur sem hafði borist fram. Hann er heitur og getur kveikt út frá sér,“ segir Sigurjón.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert