Niðurgreiðslur vegna tæknifrjóvgana verði auknar

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram frumvarp sem leggur til að endurgreiðslur við tæknifrjóvganir verði auknar til muna. Enn fremur verði tæknifrjóvgunaraðgerðir sem konur undirgangast vegna krabbameinsmeðferðar gerðar með öllu gjaldfrjálsar. Til að fjármagna þann kostnað er lagt til að niðurgreiðslur á valkvæðum ófrjósemisaðgerðum verði felldar niður.

Kostnaður við fjórar tæknifrjóvganir lækki úr 1,4 milljónum niður í 324 þúsund krónur

Eins og mál standa niðurgreiða Sjúkratryggingar Íslands fyrstu meðferð tæknifrjóvgunar um 5%. Með frumvarpinu stendur til að það hlutfall verði hækkað upp í 75%.

Önnur, þriðja og fjórða meðferð er niðurgreidd um 65%. Frumvarpið leggur til að hlutfallið hækki upp í 90%.

Miðað við gjaldskrána eins og hún er núna er kostnaður fólks við fjórar tæknifrjóvgunarmeðferðir 1,4 milljónir. Nái frumvarpið samþykki verður kostnaðurinn 324 þúsund krónur.

„Þetta eru miklar breytingar sem munu skipta mjög miklu máli fyrir fólk sem er í þessari erfiðu vegferð,“ segir Hildur Sverrisdóttir í samtali við mbl.is.

Í frumvarpinu leggur Hildur til að tæknifrjóvgunarmeðferðir sem konur undirgangast vegna geisla- og lyfjameðferða verði niðurgreiddar alveg. Eins og mál standa eru þær niðurgreiddar að hluta til. 

Breytingarnar fela í sér sparnað fyrir hið opinbera

Til að fjármagna þessi auknu útgjöld leggur Hildur til að niðurgreiðslur vegna valkvæðra ófrjósemisaðgerða verði með öllu felldar niður. Hér á hún til dæmis við svokallaðar „herraklippingar.“ Slíkar aðgerðir eru nú niðurgreiddar af ríkinu að fullu. Hildur tekur þó fram að hún sé ekki andsnúin því að fólk sæki sér slíkar aðgerðir.

„Mér finnst sjálfsagður réttur fólks að fara í slíkar aðgerðir. Mér finnst þó nauðsynlegt að forgangsraða fjármunum ríkisins betur í því skyni að létta fjárhagslega undir með þeim sem vilja verða foreldrar.“

Áætla má að kostnaður hins opinbera vegna aukins stuðnings við tæknifrjóvganir aukist um rúmar 180 milljónir króna. Hins vegar mun afnám greiðsluþátttöku vegna ófrjósemisaðgerða spara hærri fjárhæð, eða um 220 milljónir. Heildaráhrif frumvarpsins muni því skila sér í sparnaði fyrir ríkissjóð.

Hildur tekur fram að þetta sé mikilvægt í ljósi þess efnahagsástands sem nú er við lýði í landinu. 

„Á verðbólgutímum er ábyrgðarhluti að hægja á útgjaldavexti hins opinbera. Mér þykir rétt að koma með tillögu um hvernig fé hins opinbera er forgangsraðað betur svo að í þessum tilfæringum, sem mér þykja í grunninn vera sanngirnismál, sé ekki útgjaldaaukning fyrir hið opinbera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert