Festa – miðstöð um sjálfbærni hefur ráðið Elvu Rakel Jónsdóttur sem framkvæmdastjóra.
Elva hefur síðastliðin ár unnið hjá Umhverfisstofnun. Þar á undan var hún framkvæmdarstjóri umhverfismerkisins Svansins. Hún tekur við af Hrund Gunnsteinsdóttur sem hefur leitt störf félagsins síðastliðin fjögur ár.
„Það er sannkallaður draumur að fá að leiða starf Festu um þessar mundir því fyrirtæki og samfélagið allt er svo sannarlega búið að reima á sig hlaupaskóna. Að fá að starfa með kröftugum aðildarfélögum Festu á þessum tímapunkti í sögunni er því algjörlega frábært,” er haft eftir Elvu í fréttatilkynningu.
Yfirlýst hlutverk Festu – miðstöðvar um sjálfbærni er að efla þekkingu á sjálfbærum rekstri meðal fyrirtækja, stofnana og annarra skipulagsheilda. Miðstöðin stuðlar að þróun í átt að hringrásarhagkerfi og sjálfbæru atvinnulífi.
Í tilkynningu frá Festu segir að framundan séu stór verkefni. Í vikunni mun Elva stýra stærstu árlegu hringrásarráðstefnunni á Norðurlöndunum. Hún verður haldin 17. og 18. október. Á ráðstefnunni í ár verður sjónum beint að mannlega þættinum. Hvernig umskiptin yfir í hringrásarhagkerfi geta aukið jafnrétti og byggt upp framtíðahæf samfélög. Ráðstefnunni verður streymt ókeypis á netinu.