Skólastjóri Laugarnesskóla hefur sent tölvupóst á foreldra þar sem hann upplýsir foreldra um að einn starfsmaður skólans, sem var handtekinn á fimmtudag grunaður um kynferðisbrot, sé undir rannsókn fyrir blygðunarsemisbrot.
„Nú í lok dags fengum við staðfest hjá lögreglu að verið er að rannsaka málið sem blygðunarsemisbrot og að það sé ekkert sem bendi til annars á þessari stundu en að um einstakt tilvik hafi verið að ræða. Lögregla hefur einnig tjáð okkur að málið sé í forgangi og að vonandi verði hægt að veita nánari upplýsingar á næstu dögum,“ segir meðal annars í tölvupósti Björns Gunnlaugssonar skólastjóra.
Í tölvupóstinum kemur einnig fram að skólanum þyki leitt hvernig umfjöllun í fjölmiðlum „atvikaðist“ og að skólanum hefði fundist ákjósanlegast að hafa samband við foreldra áður en fréttir um málið birtust.
Mbl.is hafði greint frá því að Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar, hafði sagt málið verið rannsakað sem kynferðisbrot.
„Að lokum vil ég biðjast velvirðingar á því hve seint þessi póstur berst, en talið var mikilvægt að hafa samráð við foreldra þeirra barna sem eiga í hlut áður en hann var sendur,“ segir að lokum í tölvupósti skólastjórans til foreldra.