„Fyrst vil ég segja að við hörmum þetta atvik sem á sér stað í skólanum en að því sögðu að þá er málið náttúrulega í rannsókn og við treystum því að við, foreldrar í skólanum, verðum upplýstir eftir því sem málsatvik skýrast,“ segir Eyrún Helga Aradóttir, formaður foreldrafélags Laugarnesskóla.
Fyrir helgi greindi mbl.is frá því að starfsmaður í skólanum hefði verið handtekinn í kjölfar alvarlegs atviks, þar sem hann og nokkur börn áttu í hlut. Málið er nú rannsakað sem kynferðisbrot og segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar, að það sé litið mjög alvarlegum augum.
„Við erum hátt í 1.500 foreldrar og forráðamenn í þessum skóla því það eru um 600-700 nemendur þar þannig að auðvitað eru viðbrögðin misjöfn og eðlilega vilja foreldrar fá einhver svör. Umræðan hefur verið misjöfn líka í þessu skólasamfélagi okkar en við erum að reyna að benda fólki á líka að þetta er mál sem er í rannsókn. Við í foreldrafélaginu vitum jafnmikið og allir aðrir,“ segir Eyrún.
Þá segist hún treysta því að foreldrarnir fái upplýsingar þegar efni standi til og leyfi verði veitt fyrir því og spurð að því í framhaldinu hvort henni finnist upplýsingagjöfin hingað til hafa verið nægileg til foreldra skólans svarar hún því til að hún treysti því að verið sé að vinna rétt úr málunum.
„Ef ég svara bara fyrir mig persónulega, og ef að þetta sneri að mínu barni, þá treysti ég því að ég yrði látin vita þannig að ég gæti brugðist við málsatvikum á réttum forsendum.“
Segir Eyrún að komið hafi fram í bréfi frá skólastjórnendum að stjórnendur skólans séu að vinna í málinu í samstarfi við hlutaaðeigandi foreldra.
Aðspurð segist Eyrún ekki vita hversu gömul börnin voru sem áttu í hlut né hvort um hafi verið að ræða kennara eða almennan starfsmann skólans. Þá segist hún heldur ekki vita til þess hvort búið sé að leggja fram kæru í málinu.
„Ég veit eins og ég segi að skólastjórnendur hafa verið í sambandi við hlutaaðeigandi foreldra en væntanlega er Reykjavíkurborg með einhverja verkferla sem fara í gang þegar upp koma svona atvik. Þetta mál er ekki á borði foreldrafélagsins,“ segir Eyrún að lokum.