Borgin biðst afsökunar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, á blaðamannafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur …
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, á blaðamannafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur nýverið þar sem niðurstöður vöggustofunefndarinnar voru kynntar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgarstjórn biður börn sem vistuð voru á Vöggustofunni Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins og fjölskyldur þeirra afsökunar á illri meðferð sem lýst var í skýrslu vöggustofunefndar.

Hægt er að fylgjast með fundir borgarstjórnar hér fyrir neðan sem er í beinni útsendingu. Vöggustofuskýrslan var fyrsta mál á dagskrá. 

Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg, að ljóst sé að vistun á Vöggustofum hafi í mörgum tilvikum haft afdrifarík áhrif á líf þeirra barna sem þar voru. Þetta sé svartur blettur í sögu Reykjavíkurborgar.

Þá þakkar borgarstjórn vöggustofunefndinni fyrir sérlega umfangsmikla, vel rannsakaða og rökstudda skýrslu. Borgarstjórn sé einnig þakklát hvatamönnunum að því að rannsóknin var unnin, þeim Árna H. Kristjánssyni, Fjölni Geir Bragasyni, Hrafni Jökulssyni, Tómasi V. Albertssyni og Viðari Eggertssyni.

Í tilkynningunni segir jafnframt, að borgarstjórn taki heilshugar undir tillögur vöggustofunefndar sem fram komi í skýrslunni.

  • Fyrsta tillagan lýtur að hugsanlegum skaðabótagreiðslum til þeirra sem vistaðir voru á vöggustofunum sem börn. Þau mál eru til meðferðar Alþingis.
  • Önnur tillagan fjallar um geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu til sömu einstaklinga og er til meðferðar hjá Reykjavíkuborg.
  • Sú þriðja beinist að gildandi framkvæmd og eftirliti á sviði barnaverndarmála og er til umfjöllunar í velferðarráði og umdæmisráði barnaverndar.
  • Fjórða og síðasta tillagan lýtur að því að borgarráð taki afstöðu til þess hvort rétt sé að framhald verði á athugun á vöggustofum í Reykjavík.

Tekið er fram að eftirfylgni með tillögunum sé þegar hafin.

Hér fyrir neðan má fylgjast með fundi borgarstjórnar í beinni. Vöggustofuskýrslan var fyrsta málið á dagskrá fundarins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert