Brunavarnir í húsnæðinu við Funahöfða í Reykjavík, þar sem karlmaður lést eftir eldsvoða í gær, voru í lagi fyrir utan nýjan flóttastiga sem á eftir að útbúa.
Þetta voru niðurstöður úttektar sem slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu gerði nýlega á húsnæðinu.
Að sögn Jóns Viðars Matthíassonar, slökkviliðsstjóra á höfuðborgarsvæðinu, fékk viðkomandi frest til að koma nýja flóttastiganum fyrir. Ekkert reyndi á slíkan stiga í eldsvoðanum, sem varð á jarðhæð hússins.
Jón Viðar tekur fram að þegar slökkviliðið skoðaði húsnæðið komst það ekki inn öll rýmin en heilt yfir hafi brunaviðvörunarkerfi, hólfanir og flóttaleiðir verið ágætar, fyrir utan nýja stigann sem vantaði. Samkvæmt upplýsingum mbl.is kemur hann í stað annars flóttastiga sem þegar er á húsinu en er ekki samkvæmt nýjustu kröfum um eldvarnir.
Húsnæðið er á fasteignaskrá skilgreint sem atvinnu- eða skrifstofuhúsnæði. „Okkar verklag í búsetu í atvinnuhúsnæði er að tryggja öryggi eins vel og hægt er,” segir Jón Viðar, en þar er átt við það þegar einhver hefur tekið sér búsetu eða gistingu í atvinnuhúsnæði. „Ef það [öryggið] er ekki nægilega gott og ekki möguleiki á að tryggja það höfum við stundum neyðst til að loka.”
Bætir hann við að samkvæmt ströngustu skilmálum sé ekki heimilt að vera með búsetu í atvinnuhúsnæði. „Þarna er verið að breyta notkun á húsnæði frá því að vera atvinnuhúsnæði í gistingu.”
Fram hefur komið að rúmlega 20 manns hafi búið í leiguherbergjum í húsnæðinu. Jón Viðar segir töluna á reiki, enda hafi slökkviliðið ekki komist inn öll rýmin í síðustu skoðun. Hann hafi heyrt að 17 herbergi séu á efri hæð og 17 á þeirri neðri en getur ekki staðfest það.
„Slökkvistarf og rýming á húsnæðinu gekk vel. Það voru viðvörunarbjöllur sem fóru í gang, sem er mjög jákvætt. Það ýtti við íbúum hússins að fara út,” segir Jón Viðar, sem staðfestir jafnframt að bjarga þurfti manninum sem lést í eldsvoðanum út úr húsinu.
Eldsupptök eru ókunn og stendur rannsókn lögreglu á vettvangi brunans yfir.