Bæjarstjórar Mosfellsbæjar og Seltjarnarnesbæjar hafa ekki áhuga á sameiningarviðræðum við Reykjavíkurborg.
Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ segir að slíkt hafi pólitíkin í Mosfellsbæ ekki rætt og hún gefur sér að það sé ekki efst á dagskrá. Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, segir að slíkar hugmyndir séu tímasóun og að tíma borgarstjórnar sé illa varið í þær.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, mun leggja til að Reykjavíkurborg bjóði Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ til viðræðna um sameiningu sveitarfélaganna. Segir hún í greinargerð með tillögu sinni að viðfangsefni sveitarfélaga hafi orðið fleiri og flóknari og bendir á mikilvægi þess að unnt sé að vinna að skipulagsmálum og uppbyggingu samgangna á stærri svæðum en núverandi sveitarfélagsmörk segi til um.
„Þannig er t.d. ljóst að Reykjavík og Mosfellsbær sjá fyrir sér stórfellda uppbyggingu á nálega samliggjandi svæðum á allra næstu árum.
Seltjarnarnes, Reykjavík og Mosfellsbær myndu sameinuð mynda órofa heild á norðanverðu höfuðborgarsvæðinu,“ segir í greinargerðinni.
Regína segir í samtali við mbl.is að tillaga borgarfulltrúans um sameiningarviðræður við sveitarfélögin tvö hafi komið sér á óvart.
„Auðvitað er þetta tillaga um samtal en ég hef ekki skynjað neinn áhuga hjá núverandi meirihluta á sameiningarumræðum. Auðvitað eru sveitarfélög á Íslandi of mörg að mínu mati en ég teldi nærtækara að sameina sveitarfélög þannig að einingarnar væru um 20-30 þúsund heldur en að fara að sameinast Reykjavík.“
Líf vísar í tillögu sinni í borgarstjórn til sameiningarkosninga árið 1993 en þá var stuðningur Seltirninga og Mosfellinga nokkru minni en stuðningur í Kjósarhreppi en litlu mátti muna að íbúar þar hefðu samþykkt sameiningu en sameining Reykjavíkur og Kjalarness varð að veruleika skömmu síðar.
Regína telur að staðan hafi ekki breyst.
„Við eigum í miklu og góðu samstarfi við Reykjavík sem og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu en þetta er eitthvað sem pólitíkin hefur ekki rætt og ég gef mér að þetta sé ekki efst á dagskrá.“
Þór segir í samtali við mbl.is að Líf hafi bara getað rifið upp símann og hringt í sig.
„Gleymdu hugmyndinni. Ég hefði getað sagt henni þetta strax. Hún hefur greinilega ekki aflað sér nægilegra heimilda áður en hún óð af stað í þetta – tvo tapaða tíma fyrir borgarstjórn sem þau fá aldrei aftur. Ég held að tíma borgarstjórnar sé mjög illa varið í þetta. Ég held að það sé nóg annað að gera hjá þeim.“