Hörmungarsumar í laxveiðinni

Stundum þarf að sækja vatnið yfir lækinn. Siggi með svokallaðan …
Stundum þarf að sækja vatnið yfir lækinn. Siggi með svokallaðan villtan norskan smálax úr Orklu í Noregi í sumar sem var 80 cm langur.

Margir stangveiðimenn fóru laxlausir heim úr veiðiferðum í sumar. Óhætt er að segja að veiðin hafi valdið verulegum vonbrigðum. „Sumarið fór eins og það fór,“ segir Sigurður Héðinn, leiðsögumaður og fluguhnýtari, sem er oftar en ekki kenndur við sitt helsta höfundarverk, hina gjöfulu flugu Hauginn. „Það er bara þannig en það þýðir ekkert annað en að vera með bjartsýnina í hjarta.“

Verðsprengja orðið á veiðileyfamarkaði

Fjórða bók Sigurðar um laxveiði, Komdu að veiða, er væntanleg á markað. „Það er allt annað þema í henni en hinum bókunum. Ég fer í gegn um sex ár og fjalla um uppáhaldsveiðistaðina mína. Svo eru vatnslitamyndir eftir mig í bókinni,“ segir hann en það hjálpi veiðimönnum að átta sig á líklegum legustöðum laxa. Fluguhnýtarinn heimsþekkti er því orðinn málari. „Það er ekki erfitt að teikna upp einn hyl.“

En hvað skyldi standa upp úr eftir sumarið? „Þetta vatnsleysi og þessar hörmungar sem gengu yfir veiðiheiminn,“ segir hann og vísar þar til slysasleppinga úr laxeldi við strendur landsins. „Svo þessi verðsprengja sem hefur orðið á veiðileyfum. Það kvarta flestir undan verðhækkunum. Eru þær komnar til að vera eða hvað ætla menn að gera? Sér í lagi eftir svona sumar,“ spyr hann.

Í bókinni kynnir Siggi Haugur til leiks tíu nýjar flugur sem hann hefur hnýtt ásamt Reiðu Öndinni og Hilmari Hanssyni, sem eru landsþekktir veiðimenn og hoknir af reynslu.

„Það sem stendur upp úr eftir sumarið var veiðiferðin til Noregs, hvað þar er allt öðruvísi en hér. Ég náði fiski fyrsta daginn en svo ekki söguna meir á sex dögum. En menningin í kringum veiðina þar er allt öðruvísi en hér. Þú mátt veiða þar allan sólarhringinn. En það var gaman að víkka út veiðisjóndeildarhringinn. Ég fór í Orklu og náði þar 80 cm smálaxi.“ Margir á Íslandi væru sáttir við slíkan feng en Norðmenn kalla það smálax.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert