Skilur ekki hvernig þetta fær að viðgangast

„Að þingmenn fái síðan punktana á sitt kort en ekki …
„Að þingmenn fái síðan punktana á sitt kort en ekki Alþingi er heldur ekki frábær ráðstöfun á almannafé,“ segir Birgir. Samsett mynd

„Málið snýst ekki endilega um að þingmenn séu ekki að velja Play heldur snýst það um að þeir hafa persónulegan hag af því að velja Icelandair,“ segir Birgir Jónsson forstjóri Play, inntur eftir viðbrögðum við umfjöllun mbl.is um útgjöld Alþingis til flugmiðakaupa af íslensku flugfélögunum. 

Þar kom m.a. fram að Alþingi hefði á síðasta ári keypt flugmiða af Icelandair fyrir 20,9 milljónir króna en einungis fyrir 500 þúsund krónur af Play. Er munurinn ríflega fjörutíufaldur.

Eins og kunnugt er býður Icelandair viðskiptavinum sínum upp á að safna vildarpunktum þegar ferðir eru bókaðar með flugfélaginu. Play býður ekki upp á sömu þjónustu. Segir forstjórinn þingmenn velja Icelandair fram yfir Play vegna þessa.

„Í hvert sinn sem þeir bóka flug með Icelandair fá þingmenn punkta hjá flugfélaginu sem þeir geta notað til einkanota. Ég skil eiginlega ekki hvernig þetta fær að viðgangast enn þá þrátt fyrir fjölda fyrirspurna á Alþingi um málið,“ segir Birgir.

Söfnun vildarpunkta ekki tilgreind í skattmati

Vildarpunktasöfnun alþingismanna vegna ferðalaga á vegum ríkisins hefur áður ratað í fjölmiðla. 

Vísir fjallaði til að mynda um það fyrr á árinu að meirihluti þingmanna kysi að fljúga með Icelandair fram yfir önnur flugfélög.

Í sumar vakti svar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata, um vildarpunktasöfnun einnig athygli. Fjallaði DV þá um málið.

Almennt gildir að hlunnindi í formi söfnunar á vildarpunktum eru ekki sérstaklega tilgreind í skattmati fyrir tekjuárið 2023. Punktasöfnun eða afslættir í gegnum svokölluð tryggðarkerfi, hvort sem er vegna flugferða eða annarra kaupa á vörum eða þjónustu, mynda ekki skattskyldu svo fremi að þeir séu ekki umfram það sem eðlilegt megi telja,“ sagði m.a. í svari ráðherra.

Þá hefur Félag atvinnurekenda gagnrýnt það fyrirkomulag að opinberir starfsmenn fái vildarpunkta til einkanota vegna kaupa á flugmiðum sem þeir kaupa á kostnað skattgreiðenda.

Pétur Blöndal gagnrýndi jafnframt þessa tilhögun nokkrum sinnum þegar hann sat á þingi, meðal annars árið 2012 þegar hann sagði fyrirkomulagið siðlaust.

Punktasöfnun ekki eðlilegur hvati

„Þingmönnum býðst flug með fjölda flugfélaga frá Íslandi til allra þessara helstu áfangastaða þar sem þeir þurfa að sinna opinberum erindagjörðum. Og það má finna margvíslegar ástæður fyrir því að velja eitt flugfélag umfram önnur, svo sem brottfarartíma, en þessi hvati til að velja eitt flugfélag umfram önnur vegna punktasöfnunar er eitthvað sem ég geti ekki séð að teljist eðlilegt,“ segir Birgir.

„Að þingmenn fái síðan punktana á sitt kort en ekki Alþingi er heldur ekki frábær ráðstöfun á almannafé,“ bætir hann við. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert