„Þetta mál er áfellisdómur yfir kirkjunni“

Það gustar um biskup og þjóðkirkjuna eftir úrskurð úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar …
Það gustar um biskup og þjóðkirkjuna eftir úrskurð úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar í gær, þar sem biskup var sagður vanhæfur. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er grafalvarlegt mál. Biskup er æðsti maður þjóðkirkjunnar og sr. Agnes hefur ekki haft umboð til starfans frá 1. júlí 2022. Það er ítrekað búið að benda biskupi og Biskupsstofu á það, en Agnes situr sem fastast og gefur ekkert fyrir þessar ábendingar eins og hún sé einráð,“ segir Auður Björg Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, lögmaður sr. Gunnars Sigurjónssonar, í samtali við Morgunblaðið spurð um viðbrögð við úrskurði úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar.

Mál Gunnars sorgarsaga

„Þetta mál er áfellisdómur yfir kirkjunni og grafalvarlegt mál fyrir hana sem slíka. Hvað mál Gunnars varðar þá er það sorgarsaga og dæmi um hvernig þjóðkirkjunni hefur mistekist stórkostlega í mannauðsmálum sínum. Hún hefur brotið gróflega gegn honum og ég ætla bara að vona að í framhaldi af þessu muni Biskupsstofa bjóða umbjóðanda mínum sanngjarnar bætur og úrlausn sinna mála,“ segir Auður Björg, og bendir á að hann hafi verið í óvissu með sín mál síðastliðin tvö ár.

Allar ákvarðanir markleysa

Auður Björg segist vonast til þess að við starfi biskups taki einhver sem gangi í málið og ljúki því á sómasamlegan hátt fyrir kirkjuna.

„Úrskurðurinn segir að Agnes sé umboðslaus og þegar starfsmaður er ekki lengur bær til að taka ákvarðanir, af því að skipunartími hans er útrunninn, þá eru allar hans ákvarðanir markleysa. Allt sem Agnes hefur gert sem biskup frá 1. júlí 2022 er markleysa, þannig að þessi niðurstaða hefur miklu meira vægi en bara hvað varðar mál Gunnars,“ segir Auður Björg.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert