Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir flesta sammála um að nýjar vegatengingar yfir Miklubraut og í Vatnsmýri haldist í hendur við vígslu nýs Landspítala. Þá bendi kannanir til að æskilegt sé að endastöð fyrirhugaðrar fluglestar verði nærri miðborginni.
Tilefnið er að Valur hefur óskað eftir leyfi til að breyta hluta æfingasvæðis í lóð undir 245 íbúðir. Sú lóð yrði vestan við vestasta gervigrasvöll félagsins og nærri fyrirhugaðri akstursleið borgarlínu.
Því vakna spurningar um hvernig verkefnið stendur en ætlunin er að Snorrabrautin haldi áfram á mörkum Hringbrautar og Miklubrautar og yfir í Arnarhlíð, á milli tveggja gervigrasvalla, í hinu nýja Valshverfi.
„Við eigum í góðum viðræðum við Valsmenn um Arnarhlíðina og það skiptir miklu máli að tryggja öruggar gönguleiðir krakka sem eru að æfa báðum megin við vellina. Við teljum okkur vera með góðar lausnir á því. Síðan varðar þetta í raun vesturhluta Miklubrautarstokks en ofan á honum mun myndast svæði sem stundum hefur verið kallað Miklatorg. Það verður mikið notuð skiptistöð í nýju leiðakerfi strætó og borgarlínunnar en stærsti vinnustaður landsins, Landspítalinn, er þar við hlið og verður líka tengdur við borgarlínu. Þannig að allt er þetta hluti af heildarhugsun og sú hugsun gerir ráð fyrir borgarlínustöð sem tengir saman Hlíðarendahverfið og Loftleiðasvæðið, ef við getum kallað það svo,“ segir Dagur.
– Hvenær sérðu fyrir þér að það verði farið í þessar framkvæmdir þannig að það myndist tenging yfir í Vatnsmýrina?
„Það tengist bæði borgarlínunni og vesturhluta stokksins. Þannig að það er undir í þeim viðræðum sem við eigum við ríkið varðandi uppfærslu á samgöngusáttmálanum.“
– Verður það fyrir 2030 eða síðar?
„Það liggur auðvitað ekki fyrir fyrr en það er komin niðurstaða varðandi uppfærslu á [samgöngu]sáttmálanum. Ég held hins vegar að flestir séu sammála um að það sé mjög mikilvægt að þessi vesturhluti stokksins, og það sem snýr að borgarlínunni, haldist svolítið í hendur við verklokin við nýjan Landspítala. Þannig að það verði ekki þannig að daginn sem framkvæmdum lýkur við Landspítalann þá hefjist hinar.“
– Það má þá skilja á þér að það er hugsanlega verið að miða við árið 2030?
„Ég ætla svo sem ekki að nefna neitt ártal. Þetta er bara hluti af þeim umræðum sem eru um uppfærsluna. En það liggur auðvitað fyrir mjög mikill metnaður af hálfu ríkisins í fjármögnun á Landspítalaverkefninu og það er unnið að því næstu árin af mjög miklum þrótti að klára það og ég held að það hljóti að vera sameiginlegur vilji að huga að nánasta umhverfi í leiðinni.“
Hægt er að lesa umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.