Vilja færa verkefni eftirlitsnefnda til ríkisins

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ræðir við fundargesti …
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ræðir við fundargesti í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Allt heil­brigðis- og mat­væla­eft­ir­lit verður hjá stofn­un­um rík­is­ins og verk­efni níu heil­brigðis­eft­ir­lits­nefnda víðs veg­ar um landið fær­ast á milli stjórn­sýslu­stiga ef til­lög­ur starfs­hóps um fyr­ir­komu­lags eft­ir­lits með holl­ustu­hátt­um og meng­un­ar­vörn­um og mat­væl­um verða að veru­leika.

Kynn­ing­ar­fund­ur á veg­um um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðuneyt­is­ins fór fram í til­efni út­gáfu skýrslu starfs­hóps­ins í dag.

Ekki eru all­ir sann­færðir um ágæti vinnu starfs­hóps­ins eða niður­stöðu skýrsl­unn­ar. Full­trúi einn­ar heil­brigðis­eft­ir­lits­nefnd­ar sagði að sér liði sem stofn­un hans hafi verið lögð inn á líkn­ar­deild.

Þörf á gagn­ger­um breyt­ing­um

Mat starfs­hóps­ins er að þörf sé á gagn­ger­um breyt­ing­um á fyr­ir­komu­lagi eft­ir­lits með holl­ustu­hátt­um og meng­un­ar­hátt­um og mat­væla­eft­ir­liti. Lagðar voru til þrjár sviðsmynd­ir; að heil­brigðis­eft­ir­lits­svæðum yrði fækkað, að mat­væla­eft­ir­lit yrði hjá einni stofn­un og að allt eft­ir­lit yrði hjá stofn­un­um rík­is­ins. Það var sam­dóma álit þeirra sem skipuðu starfs­hóp­inn að hið síðast nefnda yrði heilla­væn­leg­ast.

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, skipaði starfs­hóp­inn í októ­ber á síðasta ári í sam­ráði við mat­vælaráðherra, til að leggja til nýtt fyr­ir­komu­lag að eft­ir­liti með holl­ustu­hátt­um og meng­un­ar­vörn­um og mat­væl­um. Nú fer skýrsl­an í sam­ráðsgátt stjórn­valda en stefnt er að því að frum­varp verði lagt fram á Alþingi í mars á næsta ári.

All­ir hagn­ist á skil­virku og ein­földu fyr­ir­komu­lagi

Seg­ir Guðlaug­ur Þór í sam­tali við mbl.is að all­ir hagn­ist á skil­virku og ein­földu fyr­ir­komu­lagi sem er fyrst og fremst þannig að það nái mark­miðum sín­um að hafa eft­ir­lit með þess­um mik­il­vægu mála­flokk­um.

„Það kom fram í máli allra að það eru brota­lam­ir og um það er ekki deilt. Umræðan hef­ur ein­kennst af því að það hef­ur verið brösótt að koma úr­bót­um í gegn en það þýðir ekki að menn eigi að gef­ast upp fyr­ir verk­efn­inu.“

Misst nokk­ur kíló 

Að lok­inni kynn­ingu á vinnu starfs­hóps­ins og niður­stöðu skýrsl­unn­ar var opnað fyr­ir fyr­ir­spurn­ir úr sal og nokkuð marg­ir tóku til máls. Fyr­ir­spurn­ir ein­kennd­ust nokkuð að því að all­ir fund­ar­menn voru að fá skýrsl­una í hend­urn­ar á fund­in­um sjálf­um og höfuð ekki haft tæki­færi til að kynna sér efni henn­ar. Greini­legt var að ákveðin óvissa var meðal full­trúa heil­brigðis­eft­ir­lits­nefnda og viss tor­tryggni gagn­vart vinnu starfs­hóps­ins, niður­stöðunum og ábend­ing­um hóps­ins um næstu skref.

Full­trúi einn­ar heil­brigðis­eft­ir­lits­nefnd­ar á lands­byggðinni tók til máls. Hann sagði að vinna starfs­hóps­ins, gerð skýrsl­unn­ar og biðin eft­ir niður­stöðunum hafi haft mik­il áhrif á sig og starfs­fólk sitt. Sagði hann helsta kost skýrsl­unn­ar vera að hann hafi misst nokk­ur kíló og upp­skar hann hlát­ur fund­ar­gesta. Hann sagði að niðurstaða skýrsl­unn­ar setji alla vinnu í upp­nám og að í raun­inni sé búið að leggja hans stofn­un inn á líkn­ar­deild og áætlaður dauðatími sé eitt til tvö ár.

„Eng­inn að fara á líkn­ar­deild“

Ráðherra seg­ir að því fari fjarri.

„Það er eng­inn að fara á líkn­ar­deild, ekki einu sinni á spít­ala. Við höf­um fulla þörf fyr­ir þenn­an mannauð sem er til staðar. Það er hins veg­ar ekki nóg að segja bara að verk­efn­in fær­ist á milli stjórn­sýslu­stiga.

Ég vil trúa því að þegar við vinn­um þetta með þess­um hætti, fáum þessi sjón­ar­mið og þess­ar at­huga­semd­ir þá sé það mjög góður grunn­ur til að vinna. Ég vil trúa því að því fleiri sjón­ar­mið því betra því að þetta er mik­il­væg­ur mála­flokk­ur og við verðum að vanda okk­ur.

Við erum að reyna að eyða tor­tryggni með því að koma með þetta svona skýrt fram. Við opn­um á spurn­ing­ar hér í dag til að leyfa fólki að koma sín­um sjón­ar­miðum áleiðis. Þetta er mjög skýrt, við erum að setja þetta í sam­ráðsgátt til þess að hafa sam­ráð og fá sjón­ar­mið allra aðila.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert