Allt heilbrigðis- og matvælaeftirlit verður hjá stofnunum ríkisins og verkefni níu heilbrigðiseftirlitsnefnda víðs vegar um landið færast á milli stjórnsýslustiga ef tillögur starfshóps um fyrirkomulags eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum verða að veruleika.
Kynningarfundur á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins fór fram í tilefni útgáfu skýrslu starfshópsins í dag.
Ekki eru allir sannfærðir um ágæti vinnu starfshópsins eða niðurstöðu skýrslunnar. Fulltrúi einnar heilbrigðiseftirlitsnefndar sagði að sér liði sem stofnun hans hafi verið lögð inn á líknardeild.
Mat starfshópsins er að þörf sé á gagngerum breytingum á fyrirkomulagi eftirlits með hollustuháttum og mengunarháttum og matvælaeftirliti. Lagðar voru til þrjár sviðsmyndir; að heilbrigðiseftirlitssvæðum yrði fækkað, að matvælaeftirlit yrði hjá einni stofnun og að allt eftirlit yrði hjá stofnunum ríkisins. Það var samdóma álit þeirra sem skipuðu starfshópinn að hið síðast nefnda yrði heillavænlegast.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði starfshópinn í október á síðasta ári í samráði við matvælaráðherra, til að leggja til nýtt fyrirkomulag að eftirliti með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum. Nú fer skýrslan í samráðsgátt stjórnvalda en stefnt er að því að frumvarp verði lagt fram á Alþingi í mars á næsta ári.
Segir Guðlaugur Þór í samtali við mbl.is að allir hagnist á skilvirku og einföldu fyrirkomulagi sem er fyrst og fremst þannig að það nái markmiðum sínum að hafa eftirlit með þessum mikilvægu málaflokkum.
„Það kom fram í máli allra að það eru brotalamir og um það er ekki deilt. Umræðan hefur einkennst af því að það hefur verið brösótt að koma úrbótum í gegn en það þýðir ekki að menn eigi að gefast upp fyrir verkefninu.“
Að lokinni kynningu á vinnu starfshópsins og niðurstöðu skýrslunnar var opnað fyrir fyrirspurnir úr sal og nokkuð margir tóku til máls. Fyrirspurnir einkenndust nokkuð að því að allir fundarmenn voru að fá skýrsluna í hendurnar á fundinum sjálfum og höfuð ekki haft tækifæri til að kynna sér efni hennar. Greinilegt var að ákveðin óvissa var meðal fulltrúa heilbrigðiseftirlitsnefnda og viss tortryggni gagnvart vinnu starfshópsins, niðurstöðunum og ábendingum hópsins um næstu skref.
Fulltrúi einnar heilbrigðiseftirlitsnefndar á landsbyggðinni tók til máls. Hann sagði að vinna starfshópsins, gerð skýrslunnar og biðin eftir niðurstöðunum hafi haft mikil áhrif á sig og starfsfólk sitt. Sagði hann helsta kost skýrslunnar vera að hann hafi misst nokkur kíló og uppskar hann hlátur fundargesta. Hann sagði að niðurstaða skýrslunnar setji alla vinnu í uppnám og að í rauninni sé búið að leggja hans stofnun inn á líknardeild og áætlaður dauðatími sé eitt til tvö ár.
Ráðherra segir að því fari fjarri.
„Það er enginn að fara á líknardeild, ekki einu sinni á spítala. Við höfum fulla þörf fyrir þennan mannauð sem er til staðar. Það er hins vegar ekki nóg að segja bara að verkefnin færist á milli stjórnsýslustiga.
Ég vil trúa því að þegar við vinnum þetta með þessum hætti, fáum þessi sjónarmið og þessar athugasemdir þá sé það mjög góður grunnur til að vinna. Ég vil trúa því að því fleiri sjónarmið því betra því að þetta er mikilvægur málaflokkur og við verðum að vanda okkur.
Við erum að reyna að eyða tortryggni með því að koma með þetta svona skýrt fram. Við opnum á spurningar hér í dag til að leyfa fólki að koma sínum sjónarmiðum áleiðis. Þetta er mjög skýrt, við erum að setja þetta í samráðsgátt til þess að hafa samráð og fá sjónarmið allra aðila.“