Frumvarp innviðaráðherra sem tekur til breytinga á skráningarhluta laga um lögheimili og aðsetur fer í samráðsgátt stjórnvalda í vikunni ef allt gengur eftir.
Þetta staðfestir Regína Valdimarsdóttir, teymisstjóri brunavarnarsviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í samtali við mbl.is. Regína hefur unnið með ráðuneytinu að frumvarpsgerðinni.
Skýrsla um kortlagningu á búsetu í atvinnuhúsnæði var unnin var af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Alþýðusambandi Íslands í kjölfar bruna við Bræðraborgarstíg 1 þar sem þrjú létust sumarið 2020.
„Ég sat í þessum starfshópi sem skilaði þessari skýrslu í vor. Þessar 13 tillögur sem lagðar voru fram leiddu til þess að ákveðnar tillögur fóru til úrvinnslu en aðrar þurfti að útfæra frekar. Þar á meðal voru fjórar tillögur sem lögð var áhersla á að útfæra í samráði við hagsmunaaðila. Þær kölluðu flest allar á lagabreytingar og það er í rauninni það sem við gerðum síðastliðið ár og fram á síðastliðið vor var að útfæra hvernig hver og ein tillaga ætti að virka í framkvæmd. Þetta er vandmeðfarið og það þarf að hugsa allar hliðar á málinu. Við reyndum að gera það eins vel og hægt er í þessari skýrslu sem birtist í vor.“
Regína segir mikið samráð hafa átt sér stað í gegnum þetta ferli við alla hagsmunaaðila og þess vegna hafi þessir starfshópar verið að störfum.
„Þegar við skiluðum skýrslunni fór strax af stað vinna inn í ráðuneyti og ráðherra birti áformaskjal um mögulega lagasetningu í samráðsgátt í sumar og nú er frumvarpsgerðin á lokametrunum. Við erum búin að vinna með ráðuneytinu að þessari frumvarpsgerð og ég bind vonir við og hef fengið þær upplýsingar í ráðuneytinu að frumvarpið fari í samráðsgátt í vikunni ef allt gengur eftir. Þá stendur framvinda málsins rosalega mikið á þinginu. Málið fer fyrir umhverfis- og samgöngunefnd og Alþingismenn þurfa svo að setja sig inn í málið og ræða það og svo fer málið inn á þingið.
Við vonumst til þess og gerum ráð fyrir að þingheimur sé búinn að vera að fylgjast með þessu máli. Það er afskaplega aðkallandi að bregðast fljótt og vel við en við erum ekki á sérlega góðum stað og ástandið á húsnæðismarkaðnum það er eins og það er og það eru háleit markmið um uppbyggingu en það tekur tíma og á meðan verið er að vinna að henni þá þurfum við einhvern veginn að geta brúað bilið á meðan.“