Ragnhildur Helgadóttir
Til stendur að loka hjúkrunarrýmum í Seljahlíð í Breiðholti. Þar búa nú 18 manns, en pláss er fyrir 22. Áætlað er að rýmunum verði lokað 1. febrúar.
Í svari velferðarsviðs Reykjavíkurborgar til mbl.is segir að hjúkrunarrýmin þyki ekki henta fyrir rekstur hjúkrunarheimilis.
Í Seljahlíð eru einnig 45 þjónustuíbúðir fyrir eldra fólk. Til stendur að nýta rýmið til að fjölga þjónustuíbúðum fyrir þann hóp. Enn fremur eru áform uppi um að þróa þar frekar dagþjónustu fyrir eldri borgara.
Borgin mun þó ekki sjá um þessar breytingar. Gera má ráð fyrir því að aðrir aðilar muni taka við rekstrinum á rýmunum.
Í svari frá velferðarsviði segir að hjúkrunarrýmunum í Seljahlíð verði ekki lokað fyrr en fólkið er komið með pláss annars staðar. Fólkið mun óska eftir því hvert það vill fara og því boðið að flytja þegar unnt er.
Margrét Árdís Ósvaldsdóttir, forstöðumaður Seljahlíðar, segir í samtali við mbl.is að vistmönnum hafi verið tilkynnt um lokunina allt frá því hún var ákveðin. Það var 1. mars síðastliðinn. Þetta hafi verið rætt og auglýst reglulega síðan.