Flugfélögin Icelandair og Play hafa fellt niður og seinkað tugum flugferða í kvöld og á morgun vegna yfirvofandi suðaustan hvassviðris sem mun ganga yfir í kvöld og á morgun.
Á vef Icelandair má sjá að seinkun er á öllu Bandaríkjaflugi. Þá er búið að aflýsta 19 áætlanaferðum til Evrópu á morgun. Eins hefur öllu innanlandsflugi verið aflýst á morgun.
Í tilkynningu frá Play kemur fram flugfélagið hefur frestað áætlunarferðum sem áttu að fara frá Barcelona og Madríd til Íslands í kvöld. Áætluð brottför á þeim ferðum verður klukkan 11 í fyrramálið og koma til Keflavíkurflugvallar klukkan 16 að íslenskum tíma á morgun.
Hefur PLAY þar að auki aflýst 7 áætlunarferðum til Evrópu í fyrramálið og seinkað flugi til Tenerife og Kaupmannahafnar til eftirmiðdegis á morgun.
„Áætlunarferðum sem áttu að koma frá Norður Ameríku til Íslands í fyrramálið, 19. október, hefur verið seinkað og mun þess í stað lenda á Keflavíkurflugvelli um klukkan 16 á morgun,“ segir í tilkynningu.