Þrjár konur, ein á þrítugsaldri, ein á fertugsaldri og ein á sjötugsaldri hafa verið ákærðar af Héraðssaksóknara fyrir stórfelld skattalagabrot sem samtals nema rúmum 200 milljónum króna.
Málið er óvenjulegt fyrir þær sakir að þeim er gefið það að sök að hafa ekki talið fram peningagjafir frá erlendum manni á árunum 2014-2017. Ein ákæra er á hendur konunum þremur.
Er sagt í ákæru að um sé að ræða meiri háttar brot gegn skattalögum. Sú yngsta er 27 ára í dag. Er hún í ákæru sögð hafa fengið tæplega 131 milljón króna lagðar inn á reikning sinn á árinu 2016 þegar hún var tvítug að aldri en rúmlega 600 þúsund krónur árið eftir.
Í skattframtali taldi hún upphæðina fram sem aðrar skuldir en bar að gera grein fyrir tekjunum sem skattskyldar gjafir að því er kemur fram í ákæru. Samkvæmt því bar henni að greiða samtals rúmar 59 milljónir króna í tekjuskatt og útsvar.
Næst hæstu gjafaupphæðina samkvæmt ákæru fékk kona sem 65 ára í dag. Er henni gefið að sök að hafa ekki talið fram ríflega 52,4 milljónir króna sem lagðar voru inn á reikning hennar ef erlenda manninum á árunum 2014-2017. Reiknast skattayfirvöldum til að konan skuldi ríflega 20,7 milljónir króna í tekjuskatt og útsvar.
Þriðja konan er 37 ára og er dóttir elstu konunnar í á málinu. Henni er einnig gefið að sök að hafa ekki talið fram peningagjafir upp á ríflega 29 milljónir króna sem lagðar voru inn á reikning hennar á árunum 2015 og 2017. Samtals telst vangreiddur tekjuskattur og útsvar nema 10,7 milljónum króna.
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands í nóvember.