Ömurlegt að koma að dýrunum sínum sundurtættum

Fjöldi kinda á Efra-Apavatni hefur ýmist drepist eða orðið fyrir …
Fjöldi kinda á Efra-Apavatni hefur ýmist drepist eða orðið fyrir áverkum vegna dýrbíta undanfarnar vikur. Ljósmynd/Sigríður Jónsdóttir

Sigríður Jónsdóttir, dóttir bændanna á Efra-Apavatni í Bláskógarbyggð, segir síðustu viku hafa verið hræðilega og tárum þrungna á bænum.

Fimmtán kindur hafa fundist dauðar á bænum og í grennd við hann undanfarna daga með greinilega áverka eftir dýrbíta. Þar að auki hefur fjöldi skepna fundist illa særður og hefur ekki enn tekist að hafa uppi á tugum annarra sem gætu hafa orðið fyrir skaða. 

Ömurleg aðkoma í alla staði

„Þetta er bara hræðilegt og það eru ofboðslega mörg tár búin að renna síðustu daga, bæði af reiði og sorg. Að koma að dýrunum sínum svona sundurtættum er bara ömurleg aðkoma í alla staði,“ segir Sigríður. „En algjörlega þar fyrir utan kemur svo fjárhagslegt tjón, af því að þetta er auðvitað búrekstur og það er ekki nokkur leið fyrir okkur að henda reiður á því hversu mikið tjónið er. “

Að sögn Sigríðar má rekja dýrabitin til hunda sem eru á næsta bæ, en í síðustu viku kom hún að þremur hundum sem höfðu króað eina kind af og réðust að henni. 

„Við verðum fyrst vör við hundana í túninu fyrir viku síðan. Þá var ég að koma frá Selfossi og mér fannst skrýtið andrúmsloft yfir túninu. Þar var lítið fé og mér fannst það eitthvað skrítið þannig ég ákvað að keyra þangað upp eftir. Þar finn ég strax bitið lamb við fjárhúsið sem var mjög illa leikið og það var bara búið að éta það lifandi. Það þó var ennþá lifandi þegar ég kom að því,“ segir Sigríður, en í kjölfarið fór hún inn í fjárhúsið. 

„Í fjárhúsinu voru nokkrar skepnur, sumar haltar en ekkert sem mér sýndist vera alvarlegt. Svo heyri ég hundsgelt á öðrum stað í túninu þannig ég fer beint þangað með vinkonu minni sem var með mér, sem vill svo vel til að er starfandi dýralæknir. Þá sáum við þrjá hunda ráðast að einni kind.“

Fimmtán kindur dauðar

Eftir að Sigríður og vinkona hennar höfðu komið að hundunum þremur tókst henni að ná þeim, en þar með var hörmungunum þó ekki lokið.  

„Við frekari skoðun kemur í ljós að það eru kindur á víð og dreif um túnið og um jörðina. Þar er mikið af slösuðu fé og þá finnum við strax fimm skepnur sem voru aflífaðar og eina sem var að drepast,“ segir Sigríður, en í heildina hafa fimmtán kindur fundist dauðar vegna dýrbítanna undanfarna viku.

Í kjölfarið hafði Sigríður samband við lögreglu, dýralækni og Matvælastofnun sem sinna nú málinu, en hún kveðst ósátt við viðbragðstíma yfirvalda vegna þess að hundarnir hafi fengið að ganga lausir í vikunni þrátt fyrir málavexti.

Þorir ekki að hleypa kindunum út 

„Þetta er búið að taka fáránlega langan tíma. Auðvitað þarf að fara eftir vinnureglum og gera þetta vel til þess að málin standi, en ég er ofboðslega ósátt og finnst gríðarlega ábótavant að hundarnir hafi samt sem áður ekki verið fjarlægðir strax frá heimilinu og settir í einhvers konar vörslu á meðan þeir eru að vinna sína pappírsvinnu,“ segir Sigríður. 

„Ég er bara með kindurnar mínar læstar inni á meðan ég leita að hinum. Ég þori ekki einu sinni að hleypa þeim út því ég get ekki treyst því að þær komi aftur.“

Sigríður segir ábyrgðina þó fyrst og fremst liggja hjá eigendum hundanna. 

„Þarna er ekki við neinn annan að sakast en eiganda hundarins og það er ekki hægt að velta þessu vandamáli yfir á einhvern annan aðila. Það hlýtur að þurfa að stoppa þetta.“

Kristófer Tómasson, sviðsstjóri framkvæmda- og veitusviðs Bláskógabyggðar, tjáir mbl.is nú, eftir að viðtalið var tekið, að þeir dýrbítar sem hann hafi yfirsýn yfir hafi nú verið fjarlægðir.

Raunveruleg samstaða þegar eitthvað bjátar á

Leitin að kindunum sem eftir eru stendur enn yfir og segist Sigríður vera meyr yfir þeirri hjálp og þeim stuðningi sem fjölskylda hennar hefur fundið fyrir undanfarna daga.

Þegar fréttir bárust af því að dýrbítar væru lausir óskaði Sigríður eftir aðstoð við áframhaldandi leit að því fé sem enn var ófundið og létu viðbrögðin ekki á sér standa. 

„Bæði fólk sem við þekkjum og þekkjum ekki hafa rétt fram hjálparhönd, þau fengu frí í vinnu, mættu með fjórhjól, hesta og dróna, keyrðu um og voru gangandi. Þetta fólk á allan heiðurinn skilið af því að þetta hefðum við aldrei getað gert ein. Og á endanum þegar heim var komið seint um kvöldið var ekkert hægt að gera annað en að tárast og springa úr þakklæti,“ segir Sigríður, en næstu daga heldur leitin að hinum kindunum áfram. 

„Þetta er ekki búið, við eigum ennþá eftir að leita meira og ég á eftir að biðja um meiri aðstoð. Við þurfum ekki öll að vera sammála, við þurfum ekki öll að vera vinir, en þegar eitthvað bjátar á er raunveruleg samstaða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert