Rúmlega sextugur pólskur maður lést af sárum sínum

Lögregla hefur til rannsóknar myndefni bæði innan úr húsinu og …
Lögregla hefur til rannsóknar myndefni bæði innan úr húsinu og utan en myndavélar skemmdust í brunanum og unnið er að því að endurheimta það.

Maðurinn sem lést af sárum sínum á gjörgæsludeild Landspítala í gær eftir að hafa slasast mjög alvarlega í eldsvoða á Funahöfða á mánudag var pólskur og fæddur árið 1962.

Eiríkur Valberg, lögreglufulltrúi hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti þetta í samtali við mbl.is.

Rannsókn kemur til með að taka nokkrar vikur

Eiríkur segir eldsupptök enn ókunn og býst við að rannsókn þeirra komi til með að taka nokkrar vikur.

Lögregla hefur til rannsóknar myndefni bæði innan úr húsinu og utan en myndavélar skemmdust í brunanum og unnið er að því að endurheimta það.

Eldurinn kom upp í herbergi á neðri hæð hússins sem er atvinnuhúsnæði á tveimur hæðum. Maðurinn var inni í herberginu þegar eldsins varð vart. Tveir aðrir slösuðust en hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi. Þeir hlutu annars vegar brunasár og hins vegar reykeitrun.

Að minnsta kosti 20 manns hafa búsetu í húsinu en Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is í gær að brunaviðvör­un­ar­kerfi, hólf­an­ir og flótta­leiðir hafi verið ágæt­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert