Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir töluverða fjölgun hafa átt sér stað í hópi þess fólks sem hefur búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Skylda á húseigendur að gera grein fyrir búsetu, bæði staðsetningu og fjölda þeirra sem búsettir eru.
Kortlagning fór fram á búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2021 og 2022 í kjölfar bruna við Bræðraborgarstíg 1 þar sem þrjú létust sumarið 2020.
Segir Jón Viðar í samtali við mbl.is að önnur kortlagning hafi ekki farið fram síðan þá. Aftur á móti segir hann að bæði reglubundnar skoðanir hjá eldvarnareftirliti og ábendingar sem borist hafa slökkviliði að töluverð fjölgun hafi átt sér stað. Segir hann erfitt að setja fingur á það hversu mikil fjölgunin sé.
„Við gerum þessa könnun hjá okkur í Covid-tíma alveg meðvituð um stöðuna. Á þeim tíma var rólegt hjá okkur í ferðamannabransanum og kannski voru þá Airbnb-íbúðir og annað mögulega í boði fyrir þennan hóp sem annars er í atvinnuhúsnæði en það hefur breyst og síðan hefur auðvitað fjöldi þeirra sem er að koma til landsins tekið gífurlegum breytingum eftir að það losnaði um Covid, óróleiki jókst í Evrópu, stríð og aðrir hlutir þar sem hafa haft áhrif.“
Jón Viðar segir ekki neina skráningarskyldu vera til staðar núna gagnvart þeim sem leigja út atvinnuhúsnæði til búsetu en segir að í frumvarpi sem lagt verður fyrir Alþingi komi fram skylda húseigenda að gera grein fyrir búsetu, bæði hvar og fjölda þeirra sem þar eru.
„Þannig að þetta myndi tala við okkur. Það myndi vera skylda hjá þeim að skrá inn í þjóðskrá og þá getum við haft aðgang að þeirri skrá. Þetta væri varanlegri lausn en að vera alltaf að gera kannanir eða úttektir sem eru orðnar úreltar nokkrum vikum eða mánuðum eftir að þær voru framkvæmdar.“
Þá segir hann að mikill mannafli hafi farið í slíkar úttektir sem væri betur varið í að fara í reglubundnar skoðanir inn í húsnæði af þessu tagi og skoða meðal annars brunavarnir. Segir slökkviliðsstjórinn að leggja eigi frumvarpið fram í nóvember og vonast hann til og hefur fulla trú á að það gangi eftir og að málið verði klárað fyrir jól.
Drög að útfærslu á tillögum um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu eru í samráðsgátt stjórnvalda og er frumvarpið hluti af þeirri útfærslu.
Þar verður jafnframt lagt til að þessum hópi fólks verði gert kleift að sækja sér húsnæðisbætur.
„Markmið lagasetningar er því ætlað að tryggja að skráning fólks á tiltekið lögheimili eða aðsetur gefi sem réttasta mynd af raunbúsetu í því skyni að tryggja öryggi. Til þess að tilætluðum árangri sé náð, er jafnframt markmið lagabreytingar að auka hvata til skráningar aðseturs með því að auka við heimild til að umræddur hópur geti sótt sér húsnæðisbætur, sem og að heimilt verði að skoða atvinnuhúsnæði út frá heimildum slökkviliðs er varðar brunavarnir,“ sem segir í drögunum sem nú liggja í samráðsgátt.