„Þetta eru bara mistök af okkar hálfu“

Hnífur í manndrápsmáli fannst af dóttur hins látna fjórum mánuðum …
Hnífur í manndrápsmáli fannst af dóttur hins látna fjórum mánuðum eftir að lögregla rannsakaði vettvang. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grímur Grímsson, yf­ir­lög­regluþjónn miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar lögreglu, viðurkennir í samtali við mbl.is að lögreglan hafi gert mistök í Drangahraunsmálinu. Líklegt morðvopn í manndrápsmálinu var í gær fundið af dóttur hins látna á heimili þeirra, fjórum mánuðum eftir að lögreglan skoðaði vettvanginn og fann þá ekkert morðvopn.

Maciej Jakub Tali er ákærður fyr­ir mann­dráp með því að hafa stungið meðleigj­anda sinn fimm sinn­um með hníf. Maciej gekkst við því að hafa stungið meðleigjanda sinn en ber fyrir sig sjálfsvörn.

Hefðu átt að finna hnífinn

„Þarna voru gerð mistök og við hefðum átt að finna þennan hníf. Þetta eru bara mistök af okkar hálfu,“ segir Grímur í samtali við mbl.is.

Hann kveðst ekki ætla taka afstöðu til þess hvort að þetta hafi áhrif á málið en rannsókn lögreglu er þó lokið.

„Hnífurinn var rannsakaður með tilliti til þess hvort að um væri að ræða mannablóð eða ekki. Þegar rannsókn leiddi það í ljós að blóðið væri úr manni þá var hnífurinn sendur til Svíþjóðar til að fá endanlega greiningu á því úr hverjum blóðið kemur,“ segir Grímur en bætir því við að hann sjái ekki fram á það hvernig þetta breyti rannsókninni, þar sem Maciej hafi þegar gengist við því að hafa stungið manninn til bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert