286 milljónir endurgreiddar vegna Snertingar

Ólafur Jóhann Ólafsson, Egill Ólafsson og Baltasar Kormákur á tökustað …
Ólafur Jóhann Ólafsson, Egill Ólafsson og Baltasar Kormákur á tökustað Snertingar. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

Kvikmyndin Snerting, sem Baltasar Kormákur leikstýrir eftir sögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar, hefur fengið hæstu endurgreiðslu vegna kostnaðar við kvikmyndaframleiðslu hér á landi í ár, tæpar 286 milljónir króna. Þetta kemur fram í nýju yfirliti yfir endurgreiðslur á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Snerting hefur ekki enn verið frumsýnd en þær upplýsingar fengust frá Kvikmyndamiðstöð Íslands í gær að fordæmi væru fyrir því að gengið væri frá endurgreiðslu fyrir frumsýningu. Staðfest sé að framleiðslu sé lokið og sýningaráform sömuleiðis, enda sé skilyrði endurgreiðslu að framleiðslan sé ætluð til almennra sýninga.

Mikil eftirvænting er fyrir frumsýningu Snertingar sem tilkynnt hefur verið að verði seint á þessu ári. Baltasar og Ólafur Jóhann skrifuðu handrit myndarinnar saman og sjálfur Egill Ólafsson fer með aðalhlutverkið. Tökur fóru að stærstum hluta fram hér á landi en einnig í London og Japan. Kynnt hefur verið að Snerting sé „ein umfangsmesta íslenska kvikmyndin sem ráðist hefur verið í framleiðslu á“ og upphæð endurgreiðslunnar staðfestir það. Ljóst má vera að framleiðslukostnaður nemur yfir 1,1 milljarði króna miðað við að fjórðungur hafi fengist endurgreiddur. Ekki eru dæmi um viðlíka upphæð í endurgreiðslu vegna íslenskrar kvikmyndar á síðustu árum en hærri upphæðir hafa þó verið greiddar vegna íslenskra sjónvarpsþátta.

Fleiri verkefni hafa nýverið fengið endurgreiddan framleiðslukostnað. Hinir vinsælu sjónvarpsþættir Afturelding fengu 166 milljónir króna í endurgreiðslu og Tónlistarmennirnir okkar fengu ríflega sex milljónir. Eins fengust endurgreiddar 8,5 milljónir króna vegna annarrar þáttaraðar LXS og Íslandsferð Hringfarans fékk 9,6 milljónir króna. Þá voru 54 milljónir endurgreiddar vegna framleiðslu Sagafilm á Eine Million Minuten, þýskri kvikmynd sem frumsýnd verður á næsta ári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert