Stefán Reynir Gíslason kórstjóri og organisti lést á heimili sínu hinn 17. október síðastliðinn, 68 ára að aldri.
Stefán fæddist á Sauðárkróki 23. október 1954. Hann ólst upp í Miðhúsum í Akrahreppi í Skagafirði, sonur hjónanna Guðrúnar Stefánsdóttur og Gísla Jónssonar.
Stefán stundaði fyrst nám við Tónlistarskóla Skagafjarðar og síðar við Tónlistarskóla Akureyrar og Tónskóla þjóðkirkjunnar. Þaðan lauk hann námi, m.a. í kórstjórn og raddþjálfun. Árið 1991 tók Stefán einleikarapróf í orgelleik.
Hann starfaði sem aðstoðarskólastjóri við Tónlistarskóla Skagafjarðar til fjölda ára. Stefán var stjórnandi Karlakórsins Heimis í Skagafirði í tæp 40 ár, eða nær óslitið frá 1985 til dauðadags. Hann lék undir og útsetti lög fyrir Álftagerðisbræður allt frá því að þeir sungu fyrst saman opinberlega árið 1987. Þá var Stefán organisti og kórstjóri Glaumbæjarprestakalls frá 1984. Einnig stóð hann fyrir margs konar tónleikahaldi í Skagafirði í áratugi og spilaði með danshljómsveitum á yngri árum.
Árið 2015 hlaut Stefán riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á landsbyggðinni. Einnig hlaut hann Samfélagsverðlaun Skagafjarðar árið 2021.
Eftirlifandi eiginkona Stefáns er Margrét S. Guðbrandsdóttir. Dætur þeirra eru: Halla Rut, Guðrún, hún lést árið 1978, Berglind, eiginmaður hennar er Sigurgeir Agnarsson, og Sara Katrín, eiginmaður hennar er Hjörleifur Björnsson. Barnabörnin eru fjögur; þau Stefán Rafn, Árni Dagur, Hinrik og Guðrún Katrín.
Útför Stefáns fer fram frá Sauðárkrókskirkju föstudaginn 27. október klukkan 14.