Birta lista yfir þá sem hamla þátttöku í kvennaverkfallinu

Skipuleggjendur kvennaverkfallsins hyggjast birta lista yfir atvinnurekendur sem þykja hafa …
Skipuleggjendur kvennaverkfallsins hyggjast birta lista yfir atvinnurekendur sem þykja hafa hamlað þátttöku starfsfólks síns í verkfallinu sem fram fer á þriðjudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skipuleggjendur kvennaverkfallsins hyggjast birta lista yfir atvinnurekendur sem hamla þátttöku kvenna og kvára í verkfallinu sem fram fer þriðjudaginn 24. október.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir markmiðið með listanum vera að tryggja þátttöku sem flestra kvenna og kvára í verkfallinu. 

Hægt að senda inn ábendingar

„Frá því að við byrjuðum að auglýsa verkfallið höfum við fengið ábendingar um vinnustaði sem eru að vinna markvisst gegn því,“ segir Sonja.

Í kjölfarið brugðu skipuleggjendur á það ráð búa til opið skjal á netinu þar sem hægt er að senda ábendingar um vinnustaði sem ekki styðja við verkfall kvenna og kvára á þriðjudag. Úr því verður síðan listi sem skipuleggjendur verkfallsins hyggjast birta í aðdraganda þess. 

„Þannig að við ákváðum þá að hafa samband við þá atvinnurekendur sem að féllu undir þessa skilgreiningu og fá þeirra sjónarmið í þessu og hvernig þeir séu að taka tillit til þátttöku og með hvaða hætti. Í kjölfarið var ákveðið í samráði við þá sem hafa verið að senda inn að það yrði birtur listi,“ segir Sonja og vísar þar með til lista yfir fyrirtæki sem konur og kvár hafa kvartað yfir í tengslum við verkfallið. 

70 ábendingar borist

Að sögn Sonju hafa ríflega 70 ábendingar borist nú þegar og snúa sumar þeirra að sama vinnuveitandanum.

Hún segir þó að fyrirtækin muni fá tækifæri til þess að svara fyrir sig áður en listinn verður birtur.

„Við ætlum fyrst að gefa þessum fyrirtækjum tækifæri til að svara, en af því að listinn lengdist svo fljótt í dag þá erum við líklega að horfa til þess að hann verði birtur um helgina eða fyrir daginn sjálfan.“

Vaxandi óþol fyrir misrétti

Sonja segir það vera mikilvægt að hvetja atvinnurekendur til þess að styðja við starfsfólk sitt og tryggja að það fái tækifæri til þess að taka þátt í verkfallinu. 

„Það eru auðvitað alltaf ótrúlega ólíkar aðstæður inni á vinnustöðum til þess að taka þátt. Við vitum að það er helst fólkið sem er kannski í ótryggu ráðningarsambandi eða á lægstu laununum sem á síður kost á því að fara þannig að það er mjög mikilvægt að það sé verið að tryggja það að allir hópar kvenna og kvára geti tekið þátt,“ segir Sonja. 

„Það má segja að það sé vaxandi óþol fyrir misréttinu og það ætlar enginn að bíða lengur eftir því að það verði gripið til aðgerða. Það verður bara að knýja jafnréttið fram með sterkri samstöðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert