Árnastofnun mun opna nýjan gagnagrunn, að nafninu Handrit íslenskra vesturfara, í tilefni þess að 150 ár eru liðin frá fyrstu stóru brottför Íslendinga vestur um haf. Gagnagrunnurinn verður almenningi aðgengilegur og mun innihalda alls kyns handrit sem vesturfarar skildu eftir sig.
Gagnagrunnurinn er kominn til vegna átaksverkefnisins Í fótsporum Árna Magnússonar í Vesturheimi. Opnunarþing undir sama nafni verður haldið í Eddu, húsi íslenskra fræða, næstkomandi laugardag ásamt styrktaraðila verkefnisins Þjóðræknisfélagið, sem mun halda hið árlega Þjóðræknisþing.
Þjóðræknisþingið hefst klukkan 11:00 og stendur til 13:20 og að því loknu hefst opnunarþingið með formlegri opnun gagnagrunnsins og röð fyrirlesara, þar á meðal eru Guðrún Nordal og Lilja Dögg Alfreðsdóttir ásamt verkefnastjóra átaksins, Katelin Marit Parsons.
Í viðtali við Morgunblaðið segir Katelin að hún hafi byrjað að rannsaka íslensk handrit vesturfara árið 2009 í Árnastofnun, en þá ekki einu sinni komin í doktorsnám. „Ég var bara áhugasöm,“ segir Katelin.
Leit Einars G. Péturssonar að týndu handriti Jóns lærða gaf vonir um að handrit væri að finna í Winnipeg. Þá vildi svo til að foreldrar Katelin bjuggu í Winnipeg og í fríi hjá foreldrum sínum bauðst hún til þess að kynna sér málin á þeim slóðum.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.