„Mér finnst númer eitt að þeir ættu ekki að vera að versla við ferðaskrifstofu sem er í eigu eins flugfélags á landinu, við skulum bara byrja þar,“ segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals Útsýnar, í samtali við mbl.is og vísar til hins opinbera með persónufornafninu þeir.
Útgjöld Alþingis til flugmiðakaupa af íslenskum flugfélögum hafa verið til umræðu hér á mbl.is undanfarið og lét Birgir Jónsson, forstjóri Play, þau orð falla í viðtali í fyrradag að málið snerist ekki um að þingmenn veldu ekki að fljúga með Play, þeir hefðu einfaldlega persónulegan hag af því að velja Icelandair.
Icelandair býður viðskiptavinum sínum að safna svokölluðum vildarpunktum þegar ferðir eru bókaðar með flugfélaginu og kveður Birgir þingmenn velja Icelandair umfram Play þar sem síðarnefnda flugfélagið bjóði ekki það sama.
„Númer tvö er svo að þessir aðilar, sem eru í opinberum störfum, ættu ekki að vera að bóka sínar ferðir sjálfir,“ heldur Þórunn áfram, „mér finnst að það ætti að vera skylda að hlutlausir aðilar hafi það verkefni að leita bestu kjara á hverjum tíma fyrir þá sem ferðast á vegum hins opinbera.“
Ítrekar forstjórinn það sem hún hafi sagt áður, að punktasöfnun Icelandair skekki alla samkeppnisstöðu ferðaþjónustuaðila á Íslandi. „Nýjasta útspil Icelandair er að opinberir aðilar geta notað sína punkta, sem þeir hafa safnað sér upp í ferðum á vegum ríkisins, í kaup á flugi og gistingu á vegum Icelandair og þetta er bara algjörlega óásættanlegt. Ég er til dæmis í samkeppni við Icelandair og núna geta bara allir opinberir starfsmenn keypt sér flug og gistingu á Tenerife frítt af því að þeir eiga svo mikið af punktum. Ég spyr bara, eru þetta eðlileg viðskipti?“ spyr Þórunn.
Hún telur punktasöfnunina ekki eiga að vera valkost fyrir opinbera starfsmenn á ferðum þeirra á vegum ríkisins. „Eins og Play benti á er það ekki vegur að starfsmenn á vegum Alþingis hafi einungis getað notað Icelandair og ekki hafi verið möguleiki að fljúga með Play. Oft er gríðarlegur munur á verði þessara flugfélaga,“ bendir Þórunn á.
Segir hún mikilvægt að hægt sé að bjóða upp á öll flugfélög sem fljúga til og frá landinu, stoð og stytta íslenskrar ferðaþjónustu sé að sem flest flugfélög kjósi að halda uppi slíkum ferðum.
„Ríkið getur auðveldlega sett reglur um hvers konar fargjöld og gistingu megi bóka. Setti ríkið slík skilyrði fyrir þjónustuaðila yrði þetta mjög auðvelt. Opinberir starfsmenn hafa gegnum árin viljað gera þetta sjálfir og eyða sínum vinnutíma í að leita á netinu að flugmiðum og svo framvegis. Starfskröftunum er mjög illa varið hvað það varðar,“ segir Þórunn.
„Ég vona að menn taki á þessu núna í eitt skipti fyrir öll,“ segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals Útsýnar, að lokum.