Gestastofan lyftistöng á Kirkjubæjarklaustri

Boðið verður til kaffisamsætis á gestastofunni í kvöld.
Boðið verður til kaffisamsætis á gestastofunni í kvöld. mbl.is/Sigurður Bogi

Vatnajökulsþjóðgarður býður gestum og gangandi í kaffisamsæti í nýrri gestastofu þjóðgarðsins á Kirkjubæjarklaustri í kvöld. Sýndar verða lokatillögur í hönnunarsamkeppni um sýningu í gestastofunni sem ráðgert er að opni á næsta ári. 

Bygging gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri var boðin út í byrjun árs 2021, en fyrsta skóflustungan var tekin í júní 2020. Framkvæmdirnar hafa gengið vel og eru nú á lokastigi.

Þó á enn eftir að klára ýmislegt að sögn Fanneyjar Ásgeirsdóttur, þjóðgarðsvarðar á Kirkjubæjarklaustri, en hún nefnir sem dæmi uppsetningu sýningar í gestastofunni.

Kynna niðurstöður úr hönnunarsamkeppni

Formleg opnun gestastofunnar verður því ekki fyrr en á nýju ári að sögn Fanneyjar, en þangað til verður hverjum áfanga fagnað. Í því samhengi nefnir hún sem dæmi að fyrir ári síðan hafi verið haldið kaffisamsæti á lóð húsnæðisins, þar sem gestum bauðst að skoða framkvæmdirnar á byggingarstigi. 

Nú er byggingin langt komin og því þótti tilvalið að bjóða aftur til kaffisamsætis og kynna niðurstöður hönnunarsamkeppni sem efnt var til um sýningu í gestastofunni.

Var það fransk-íslenska hönnunarfyrirtækið SP(R)INT STUDIO ásamt Nissen Richards Studio sem bar sigur úr býtum, en alls voru þrjú teymi valin í forvali keppninnar og verða lokatillögurnar þrjár sýndar á uppskeruhátíðinni í kvöld. 

Þangað til sú sýning verður tilbúin fær þjóðgarðurinn að hafa Vorferð, afmælissýningu Jöklarannsóknarfélags Íslands, að láni, í sýningarrýminu.

Gjöf frá bónda á Hæðargarði

Fanney bindur miklar vonir við að gestahúsið geti orðið lyftistöng fyrir samfélagið á Kirkjubæjarklaustri. Hún segir húsnæðið vel staðsett og því láti þau sig dreyma um að þetta geti orðið staður þar sem fólk stoppar og skoðar sig um.

Hvort sem það er til að skoða Systrafoss, skella sér í sundlaugina á Kirkjubæjarklaustri, til að njóta veitinga eða annarrar þjónustu í bænum.

Aðspurð segir hún staðsetningu hússins koma til af því að Magnús Þorfinnsson, bóndi í Hæðargarði, færði Vatnajökulsþjóðgarði lóðina að gjöf fyrir mörgum árum síðan.

Hún segir hann hafa séð fyrir að þetta yrði gott skref fyrir heimabyggðina sína og því hafi húsnæðið risið á þessari lóð við svonefndan Sönghól í landi Hæðargarðs, rétt sunnan við brúna yfir Skaftá áður en ekið er inn í byggðina á Klaustri.

Endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir

Gestastofan er 765 fermetrar að stærð og var kostnaður áætlaður 852 milljónir króna árið 2022.

Þar sem framkvæmdum við bygginguna er ekki lokið segir Ingibjörg Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, að ekki sé búið að gera lokauppgjör. Því liggur endanlegur kostnaður við gestastofuna ekki fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert