Áætlað er að yfir 2.000 þátttakendur frá nærri 70 löndum taki þátt í þingi Hringborðs Norðurslóða, sem á ensku nefnist Arctic Circle, sem hófst í Hörpu í morgun og stendur til laugardagsins 21. október.
Þingið er stærsti alþjóðlegi vettvangurinn fyrir málefni tengd Norðurslóðum og hefur það verið haldið árlega í Hörpu síðan árið 2013. Þar koma saman þjóðarleiðtogar, stjórnendur vísindastofnana og fyrirtækja, sérfræðingar í umhverfismálum, fulltrúar frumbyggja og frumkvöðlar víðs vegar að úr heiminum.
Á þinginu verða yfir 200 málstofur með um 700 ræðumönnum, þar á meðal utanríkisráðherrum, umhverfisráðherrum og forystumönnum vísindastofnana, umhverfissamtaka, fyrirtækja og frumbyggjasamfélaga. Auk þess verður á þinginu fjöldi móttaka, funda og listasýninga um málefni tengd Norðurslóðum, loftslagsbreytingum, hreinni orku, auðlindum hafsins og fleiri sviðum.
Þá verður fjallað um framtíðarsýn formennskunnar í Norðurskautsráðinu, sem Noregur gegnir til ársins 2025, og viðfangsefni Loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna, COP28, verður kynnt sérstaklega.
Meðal þeirra sem taka þátt má nefna Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra, Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Einnig mæta utanríkisráðherrar Noregs og Danmerkur, Anniken Huitfeldt og Lars Lökke Rasmussen, ásamt Sultan Al Jaber, forseta Loftlagsþings Sameinuðu þjóðanna, COP28.