Hringborð Norðurslóða sett í Hörpu

Fullt var út að dyrum í Hörpu snemma í morgun …
Fullt var út að dyrum í Hörpu snemma í morgun þegar þátttakendur þingsins mættu til að skrá sig inn og fá passa. mbl.is/Hákon Pálsson

Áætlað er að yfir 2.000 þátttakendur frá nærri 70 löndum taki þátt í þingi Hringborðs Norðurslóða, sem á ensku nefnist Arctic Circle, sem hófst í Hörpu í morgun og stendur til laugardagsins 21. október.

Þingið er stærsti alþjóðlegi vettvangurinn fyrir málefni tengd Norðurslóðum og hefur það verið haldið árlega í Hörpu síðan árið 2013. Þar koma saman þjóðarleiðtogar, stjórnendur vísindastofnana og fyrirtækja, sérfræðingar í umhverfismálum, fulltrúar frumbyggja og frumkvöðlar víðs vegar að úr heiminum.

Ráðherrar Íslands áberandi á þinginu

Á þinginu verða yfir 200 málstofur með um 700 ræðumönnum, þar á meðal utanríkisráðherrum, umhverfisráðherrum og forystumönnum vísindastofnana, umhverfissamtaka, fyrirtækja og frumbyggjasamfélaga. Auk þess verður á þinginu fjöldi móttaka, funda og listasýninga um málefni tengd Norðurslóðum, loftslagsbreytingum, hreinni orku, auðlindum hafsins og fleiri sviðum.

Búist er við um 2.000 þátttakendum víðs vegar að úr …
Búist er við um 2.000 þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. mbl.is/Hákon Pálsson

Þá verður fjallað um framtíðarsýn formennskunnar í Norðurskautsráðinu, sem Noregur gegnir til ársins 2025, og viðfangsefni Loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna, COP28, verður kynnt sérstaklega.

Meðal þeirra sem taka þátt má nefna Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra, Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Einnig mæta utanríkisráðherrar Noregs og Danmerkur, Anniken Huitfeldt og Lars Lökke Rasmussen, ásamt Sultan Al Jaber, forseta Loftlagsþings Sameinuðu þjóðanna, COP28.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert