Sú þróun sem hefur átt sér stað undanfarið, þar á meðal stríðið í Úkraínu, undirstrikar mikilvægi orkuöryggis. Þessi staða minnir okkur á að orkuöryggi og þjóðaröryggi eru samtengd hugtök.
Þetta kom fram í máli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á ráðstefnu á Hilton Reykjavík Nordica Hótel um orkuöryggi og samfélag þar sem orkuöryggi á Norðurlöndum var til umfjöllunar. Ráðstefnan var hluti af þingi Hringborðs norðurslóða – Arctic Circle Assembly 2023, sem hófst í morgun.
Orkuöryggi er ofarlega í huga heimsbyggðarinnar um þessar mundir enda standa þjóðir frammi fyrir miklum áskorunum vegna stríðsátaka og áforma um að umbylta orkukerfum heims á næstu áratugum til að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum.
Guðlaugur Þór benti í erindi sínu á mikilvægi sjálfbærrar orkunýtingar og að almenningur þurfi að taka virkan þátt í verkefninu. Ráðherrann kvaðst einnig þakklátur fyrri kynslóðum Íslendinga sem ruddu brautina í orkumálum þegar kemur að hitaveitu og rafmagni. Sömuleiðis benti hann á mikilvægi þess að hætta notkun jarðefnaeldsneytis.
Í pallborðsumræðum var Guðlaugur Þór spurður um álit sitt á lagningu sæstrengs frá eyjum á borð við Íslandi og Grænlandi til meginlandsins. Hann svaraði því að lágt orkugjald myndi heyra sögunni til á Íslandi og að Íslendingar þyrftu að framleiða mikið af orku til að láta slíkt ganga. Hann kvaðst algjörlega á móti hugmyndinni og sagði mikilvægt að vera með stöðuga og örugga orku á góðu verði á Íslandi. „Það er ekki margt ódýrt á Íslandi en orkan er ódýr," sagði hann.
Spurður út í samstarf um vetnisframleiðslu á Norðurlöndunum sagði ráðherrann óvissu vera uppi um hvernig hlutirnir myndu þróast og hvers konar orka verði notuð. Hann sagði afar mikilvægt að starfa með hinum Norðurlöndunum að þessu málum og nefndi orkuskipti í flugvélum sem dæmi.
Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, sagði orkuöryggi sömuleiðis vera mikilvægt fyrir þjóðaröryggi. „Ef Norðurlönd ætla að ná metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum verða ráðamenn að átta sig á mikilvægi þess að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda," sagði Elleman og nefndi að kallað hefði verið eftir meira samstarfi Norðurlanda, sérstaklega við að trygga orkuöryggi. Hún sagði mikilvægt að allir tækju átt í verkefninu, þar á meðal almenningur, og að skapa þyrfti traust og sameiginleg gildi í þessum efnum.
Í pallborðsumræðum nefndi Elleman mikilvægi þess að kenna orkumál í skólum og fræða nemendur um hvernig kerfið virkar. Einnig sagði hún nauðsynlegt að fólk hittist og ræddi orkumál. Sömuleiðis sagði hún mikið vera um falsfréttir og skautun úti í samfélaginu þegar kemur að umræðu um orkumál á Norðurlöndum og að hraðinn í umræðunni væri meiri en nokkru sinni fyrr. Samfélagsmiðlar ættu þar hlut að máli. Hún sagði nauðsynlegt að muna eftir lýðræðishefð Norðurlanda og mikilvægi þess að eiga samtöl um málefnin.
Klaus Skytte, yfirmaður hjá Norrænum orkurannsóknum, sagði átökin í Úkraínu hafa sýnt að tryggja þyrfti orkubirgðir. „Orkukrísan hafði áhrif á okkur öll en hún hafði mismunandi áhrif á okkur," sagði um um Norðurlöndin og bætti við að áhrifin hefðu verið lítil á Íslandi. Ríkisstjórnir Norðurlandanna hefðu einnig brugðist á misjafnan hátt við vandanum.