Réttast væri að tala um hnattræna suðu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í ræðu sinni fyrr í dag …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í ræðu sinni fyrr í dag að yfirstandandi ár væri ár hörmunga í loftlagsmálum. mbl.is/Hákon Pálsson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hélt ræðu á setningu þings Hringborðs Norðurslóða í dag þar sem hún lagði ríka áherslu á samstöðu þjóðanna þegar kemur að því að mæta auknum áskorunum vegna loftlagsbreytinga og annarra hörmunga sem eru að eiga sér stað í heiminum. Þá sagðist hún vona að þingið í ár yrði góður undirbúningur fyrir COP28, loftlagsþing Sameinuðu þjóðanna, sem haldið verður í lok nóvember í Dubai.

Ýmsar áskoranir

Forsætisráðherra minnti á að mikilvægi Norðurslóða felist í þeim víðtæku áhrifum sem svæðið hafi á heiminn. Að sama skapi hafi það sem gerist annars staðar í heiminum áhrif á Norðurslóðir. Því skipti það miklu máli, bæði fyrir Norðurslóðir og heimsbyggðina alla, að vinna að friðsælum lausnum og afvopnun í stríðsátökum sem geisa því miður allt of víða. 

„Staðan í heiminum er að verða alvarlegri með hverjum deginum. Árás Rússa í Úkraínu var ekki einungis hörmuleg í sjálfu sér heldur setti hún hættulegt fordæmi í alþjóðasamskiptum. Þeir hræðilegu hlutir sem eiga sér nú stað í Ísrael og Palestínu eru enn ein áminningin um að þessi hringrás stríða og átaka bitnar ávallt mest á saklausu fólki,“ sagði Katrín í ræðu sinni.

Setning þingsins fór fram í Silfurbergi í Hörpu í dag.
Setning þingsins fór fram í Silfurbergi í Hörpu í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

Ákveðið bakslag í umræðunni um loftlagsmál

Þá ræddi hún ítarlega um loftslagsmálin og sagði að yfirstandandi ár væri ár hörmunga í loftslagsmálum. Áhrif hamfarahlýnunar væru sjáanleg á Norðurslóðum en samkvæmt nýrri skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar hefðu jöklar á Íslandi minnkað um tæplega fimmtung að flatarmáli frá lokum 19. aldar.

„Við stöndum ekki einungis frammi fyrir tímum hnattrænnar hlýnunar heldur væri kannski réttara að segja hnattrænnar suðu. Í sumar voru skógareldar og flóð, sjávarhiti hefur aldrei mælst hærri og sjávarísinn hér á Norðurslóðum hefur aldrei verið minni en hér halda jöklarnir áfram að bráðna. Við vitum að loftlagsbreytingar eru að eiga sér stað á mun meiri hraða hér en annars staðar í heiminum,“ sagði hún og bætti við að lokum að ákveðið bakslag hefði átt sér stað í umræðunni um loftlagsmál. 

„Ekki aðeins frá þeim sem afneita loftslagsvísindunum, heldur líka frá öflum sem vilja hægja á loftslagsaðgerðum. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að það komi skýr skilaboð frá COP28 um nauðsyn þess að hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert