Tími aðgerða er núna

Lars Lökke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, sagði að með sameiginlegu átaki …
Lars Lökke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, sagði að með sameiginlegu átaki væri hægt að bregðast við loftlagsbreytingum. mbl.is/Hákon Pálsson

Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, sagði í ræðu sinni við setningu þings Hringborðs Norðurslóða í Hörpu fyrr í dag að þótt sýn þjóða gæti verið mismunandi að þá væru markmiðin sameiginleg. Nefndi hann að þingið væri afar mikilvægur vettvangur fyrir fólk að koma saman en gott væri að eiga sanna vini sem styddu hvern annan.

Þá sagði hann margt hafa áunnist á Norðurslóðum en ýmsar áskoranir væru þó framundan þar sem Norðurheimskautið fyndi vel fyrir áhrifum hnattrænnar hlýnunar.

Verðum að forgangsraða

Rasmussen sagði veröldina hafa breyst mikið eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar í fyrra sem hafi haft mikil áhrif á samvinnu á vettvangi Norðurheimskautsráðs. Þá sagði hann að tími aðgerða væri núna ef við vildum koma í veg fyrir frekari flóð, elda og aðrar náttúruhamfarir.

Lars Lökke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, og Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi …
Lars Lökke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, og Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og formaður Hringborðs Norðurslóða, buðu upp á spurningar úr sal eftir ræðu hins fyrrnefnda. mbl.is/Hákon Pálsson

Með hækkandi hitastigi í heiminum yrðu Norðurslóðirnar einna helst fyrir barðinu á loftlagsbreytingunum en sagðist hann þó trúa því að með sameiginlegu átaki væri hægt að bregðast við þessum breytingum og sigrast á þeim áskorunum sem við okkur blasa.

„Við verðum að forgangsraða og megum ekki taka neinu sem sjálfsögðum hlut,“ sagði hann og bætti við að lokum að áskorununum fylgdu líka tækifæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert