Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að allt sé að komast í rétt horf á Keflavíkurflugvelli en mikil röskun var á flugi í gær vegna óveðurs.
„Það var á milli klukkan 14 og 15 í gær sem landgangarnir voru teknir í notkun á nýjan leik og þá fóru áætlanirnar að detta inn með eðlilegum hætti en svo geri ég ráð fyrir að það taki einhvern tíma fyrir flugfélögin að koma sínum áætlunum á réttan kjöl eftir allar tafirnar og aflýsingarnar í gær,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is.
Fram kemur í frétt á RÚV að töluverð örtröð hafi verið í brottfararsal Keflavíkurflugvallar í morgun. „Ég er búinn að heyra af því og það var alveg viðbúið eftir svona dag eins og var í gær. Við erum viðbúin því. Umferðin um flugstöðina seinnipartinn í gær og í gærkvöldi þegar vélaranar voru farnar aftur af stað og koma til landsins gekk bara greiðlega,“ segir Guðjón.
Hann hvetur farþega til að fylgjast vel með tímum sínum á flugi og mæti tímalega á flugvöllinn.