Annar dagur þings Hringborðs norðurslóða, Arctic Circle, hófst í morgun með fjölmörgum málstofum í Hörpu og á Reykjavík Edition. Þá var helst verið að ræða rannsóknarsamstarf á norðurslóðum, réttindabaráttu frumbyggja og orkuskiptin.
Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður á Bandaríkjaþingi fyrir Alaska, flutti erindi sitt á málstofu í Silfurbergi í Hörpu eftir hádegi en þar fjallaði hún um nýja sýn Bandaríkjanna á norðurslóðum.
Sagði hún það mikinn heiður að fá að vera þátttakandi á þessu þingi, sem væri það stærsta hingað til, en hún hefði því miður misst af þinginu í fyrra. Tók hún fram að á fyrstu þingum Hringborðs norðurslóða hefði fámennur hópur mætt frá Bandaríkjunum en í dag væri hún stolt að sjá fjölmennan hóp mættan þaðan og þá sérstaklega frá Alaska.
Murkowski sagði að loks væru Bandaríkin og áhugi þeirra á norðurslóðum orðin sýnileg. Bandaríkin væru loksins farin að meta að þau væri heimskautsþjóð og að framtíðarsýnin fyrir svæðið væri á hægan en öruggan hátt að taka á sig mynd.
Sagðist hún þó verða að viðurkenna að þetta hefði ekki alltaf verið auðvelt.
„Það tekur á að ýta steini á undan sér upp brekku en sýnin okkar er enn sú að þetta er verk í vinnslu sem er langt í frá fullkomið. Það vantar enn nokkra hluti upp á en ég held að við höfum snúið þessu úr því að tala um stefnu yfir í það að hrinda henni í framkvæmd.“
Fór Murkowski einnig yfir að verið væri að gera sögulegar fjárfestingar, sem snúa að grunnþörfum í nútímasamfélagi, svo íbúar á norðurslóðum gætu notið sem allra bestu lífskjara á sínum heimaslóðum.
Bætti hún því við að miklar breytingar hefðu átt sér stað á svæðinu og að fólkið sem byggi þar væri í forgangi. Tryggja þyrfti fæðuöryggi og að gera svæðið aðlaðandi til að koma í veg fyrir að komandi kynslóðir flyttu ekki í burtu.
Lagði hún að lokum mikla áherslu á að Bandaríkjamönnum væri alvara þegar kæmi að því að standa við gefin loforð hvað norðurslóðirnar varðar. Þeir væru nú þegar búnir að taka sig mikið á og styrkja sambönd sín við aðrar þjóðir á svæðinu.
„Það fer ekki á milli mála að við erum að gera betur og höfum tekið okkur á. Nú felast áskoranir okkar í því að standa við þessar skuldbindingar, byggja áfram á þeim árangri sem við höfum náð og tækla þær áskoranir sem fram undan eru. Við eigum góða bandamenn hér á norðurslóðum sem eru að fást við það sama, við erum því ekki ein.“