Innviðaráðherra hefur lagt frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um mannvirki og lögum um brunavarnir inn í samráðsgátt stjórnvalda.
Frumvarpið, sem er afurð mikillar samráðsvinnu í kjölfar bruna við Bræðraborgarstíg 1 þar sem þrjú létust sumarið 2020, er lagt fram til eflingar á brunavörnum og öryggi fólks sem hefur fasta búsetu í atvinnuhúsnæði.
Meðal annars er lagt til að þeim sem séu skráðir án tilgreinds heimilisfangs og hafi fasta búsetu í atvinnuhúsnæði bjóðist að skrá sig með sérstakt aðsetur hjá Þjóðskrá Íslands.
„Þetta er gert í öryggisskyni svo slökkvilið og aðrir viðbragðsaðilar viti hverjir búi í atvinnuhúsnæði þegar vá ber að höndum,“ sem segir í kynningu málsins í samráðsgátt.
Segir ennfremur í kynningunni að aðsetri fylgi engin réttindi og því sé í engu hægt að bera saman við lögheimilisskráningu. Þannig sé enginn hvati á bakvið skráningu annar en að tryggja öryggi íbúa.
Hins vegar sé einnig að finna ákvæði í frumvarpinu sem leggi ábyrgð á eigendur atvinnuhúsnæðis til að hlutast til um að skráning einstaklinga sem hafi fasta búsetu í húsnæði þeirra sé rétt.
Í frumvarpinu er þá að finna ýmis önnur ákvæði sem efla brunavarnir og heimildir slökkviliðsins til eftirlits svo sem heimild til inngöngu inn í húsnæði og heimild til beitingu stjórnvaldssekta svo dæmi séu nefnd.
Tekið er fram að verkefnið sé brýnt og umsagnaraðilar eru hvattir til að kynna sér frumvarpið sem fyrst. Umsagnarfrestur er til og með 29. október.