„Ég er ekki komin svo langt“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir fjármálaráðherra segist ekki vera búin að ákveða hvort hún leggi niður störf á kvennafrídaginn sem verður á þriðjudaginn.

„Ég er ekki komin svo langt,“ sagði Þórdís Kolbrún við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í Ráðherrabústaðnum í morgun aðspurð hvort hún ætli að leggja niður störf. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lét hafa eftir sér við mbl.is eftir fundinn að hún vænti þess að konur í ríkisstjórninni myndu taka sér frí á umræddum degi..

Spurð hvort konur sem starfa á vegum ríkisins fái greidd laun ákveði þær að leggja niður störf á kvennadaginn sagði Þórdís;

„Ég er bara ekki inni í því hvernig þessum málum verður háttað á þessum degi og þetta hefur ekki ratað inn á mitt borð á þeim þremur dögum sem ég verið í embættinu. Ég hef skilið það sem svo að það séu ýmsar stofnanir bæði innan ríkis og sveitarfélaga sem taka ákvarðanir fyrir sig og sína.

Ef það er eitthvað misstýrt sem stendur upp á mig þá mun ég taka afstöðu til þess. Ef það er ekki þá mun ég ekki gera það. Ég veit að það er búið að seinka ríkisstjórnarfundi og hann verður á miðvikudaginn í stað þriðjudagsins. Ég hef nóg að gera í nýju embætti og það er mikið af efni sem ég þarf að kynna mér og lesa,“ sagði Þórdís Kolbrún við mbl.is en hún settist í stól fjármálaráðherra á mánudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert