„Ég mun leggja niður störf“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Freyr

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að hún muni leggja niður störf eins og fjöldi annarra kvenna á þriðjudaginn í næstu viku, kvennafrídaginn. Segist hún ekki ætla að boða til ríkisstjórnarfundar þá og að hún eigi von á að aðrar konur í ríkisstjórninni leggi einnig niður störf.

„Ég mun leggja niður störf og við allar hér, eða ég vænti þess,“ sagði hún við blaðamann mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.

Sagði Katrín að enn væri nokkuð í að markmiðum um jöfn laun kynjanna yrði náð og að það væri óskiljanlegt. „Ég er fyrst og fremst með þessu að sýna samstöðu með íslenskum konum. Eins og kunnugt er höfum við ekki enn náð markmiðum okkar um fullt jafnrétti kynja og við erum enn að takast á við kynbundinn launamun sem er óskiljanlegt á árinu 2023. Við erum enn að takast á við kynbundið ofbeldi sem hefur verið forgangsmál minnar ríkisstjórnar að takast á við.“

Spurð út í stöðuna hjá ríkinu um jöfn laun sagði Katrín að sá launamunur hefði verið að dragast saman, bæði hjá ríki, sveitarfélögum og á almenna markaðinum. Hún sagði stjórnvöld nú vera að skoða sérstaklega hvernig sérstakar kvennastéttir séu metnar í samanburði við hefðbundnar karlastéttir og til þess hafi verið sett af stað verkefni innan fjögurra ríkisstofnana sem séu mjög ólíkar. Það eru Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Tryggingastofnun, Ríkislögreglustjóri og Hafrannsóknarstofnun.

„Þar erum við að skoða nákvæmlega hvernig þessi störf eru ólíkt metin, því við metum það þannig að sá launamunur sem út af stendur eigi rætur að rekja til þessa,“ sagði Katrín að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert