Anna Halldórsdóttir, skrifstofustjóri Stéttarfélags Vesturlands, sem tók ákvörðun með svo til engum fyrirvara að bjóða sig fram í stjórn Landssambands íslenskra verzlunarmanna (LÍV) og með enn styttri fyrirvara að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni, Ragnari Þór Ingólfssyni, segist í samtali við mbl.is vera hæst ánægð með árangur sinn í formannskjörinu.
Anna tók ákvörðun með svo til engum fyrirvara að bjóða sig fram í stjórn og með enn stryttri fyrirvara að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni, Ragnari Þór Ingólfssyni. Ragnar hlaut rúmlega 60% kosningu en Anna tæplega 40% þrátt fyrir að um 84% þingfulltrúa kæmu frá VR hvar Ragnar er formaður til síðustu sex ára.
„Ég lít á mig sem sigurvegara, það er bara svoleiðis. Ég ætla að njóta þess um helgina að eiga þetta augnablik, að hafa farið í þennan slag og komið út svona sterk. Eftir helgi tekur svo bara vinnan við.“
Anna segist hafa tekið ákvörðun á þinginu sjálfu um að bjóða mig fram í stjórn en eftir tvo og hálfan tíma á þingi hafi hún farið til formanns kjörstjórnar og sagt honum að hún ætli að bjóða sig fram í formanninn gegn Ragnari.
„Mér fannst bara kominn tími til að hann fengi að sjá að hann ætti þetta ekki og það sé ekki sjálfgefið að formaður VR sé formaður LÍV líka, þetta er landssamband. Að horfa á þessa mikla samþjöppun á því valdi sem Ragnar hefur á sínum höndum. Hann er einnig fyrsti varaforseti ASÍ. Það kom fram hjá honum að þetta snérist ekki um stóla.
Ég lít öðruvísi á. Ef þetta snýst ekki um valdið ertu tilbúinn að dreifa valdinu. Þeir sem dreifa valdinu eiga sterkara bakland, þeir fá meiri víðsýni og betri útkomu. Það er það sem ég lagði upp með. Ég vildi aðeins hrista upp í þessu.“
Anna Halldórsdóttir hefur unnið í hreyfingunni síðustu fimm ár en hún segist hafa setið allan hringinn í kringum borðið þegar kemur málaflokknum. Híun segist hafa sett sér markmið um 25% kosningu um það bil.
„Ég hef verið atvinnurekandi og stjórnandi á stórum vinnustað, launafulltrúi og starfsmannastjóri og svo enda ég í verkalýðsbaráttunni. Þegar maður er nýr og blautur á bakvið bæði þá hefur maður kjark og þor. Ég vissi ekki hver útkoman yrði en ætlaði bara að taka slaginn.“
Anna mun taka sæti í stjórn Ragnars og það leggst vel í hana. Hún segist engar áhyggjur hafa af komandi samstarfi við Ragnar.
„Ég er full eldmóði að takast á við þau verkefni og við þurfum breiddina. Ég er með góðan stuðning og mun láta rödd mína heyrast. Maður getur unnið með öllu fólki sem maður vill vinna með. Þetta er allt bara spurning um þroska, að hlusta og taka samtalið.“
Spurð hvort þau Ragnar hafi tekið samtalið að loknu formannskjöri segist hún hafa óskað honum til hamingju með sigurinn og hann hafi gerði slíkt hið sama. Þau muni bara heyrast eftir helgi.
Á þinginu sátu 87 fulltrúar en 73 þeirra voru frá VR. Það gera tæplega 84% fulltrúa en Anna fékk samt sem áður tæplega 40% kosningu komandi inn í formannskjör úr litlu félagi utan af landi með nær engum fyrirvara.
„Þetta bara segir allt sem segja þarf. VR er auðvitað með ráðandi stöðu inn á þingi. Ég fann það þegar framboðið var komið fram að fólk var ánægt með þetta. Ánægt með að ég hafi þorað að taka slaginn sem kannski segir manni líka að það er fólk þarna inni sem finnst að það þurfi að breyta en er kannski of nálægt forystunni.“
Spurð hvort hún hyggist bjóða sig fram að nýju að tveimur árum liðnum segir hún lífið breytingum háð og hún viti ekki einu sinni vita hvar hún verði þá.
„En það er alveg í huganum. Já já, við förum bara í þennan slag aftur eftir tvö ár en svo veit ég ekki hvar ég verð eftir tvö ár eða hvernig hreyfingin verður eftir tvö ár. Það er bara svoleiðis. En ég skorast ekki undan.“