Staða átakanna á Gasasvæðinu var rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í dag, þrátt fyrir að ekki sé minnst á það í opinberri dagskrá fundarins sem birt var á heimasíðu Stjórnarráðsins að fundi loknum. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra staðfesti að málið hefði verið á dagskrá fundarins og að hann hefði farið yfir minnisblað um stöðu og þróun mála þar. Hins vegar voru kröfur mótmælenda og undirskriftarlisti sem mótmælendur afhentu forsætisráðherra fyrir ríkisstjórnarfundinn ekki rædd á fundinum.
Í dagskrá fundarins, sem birt var strax að fundi loknum kemur fram að tvö mál hafi verið á borði utanríkisráðherra á fundinum. Þau voru:
Að fundi loknum spurði blaðamaður mbl.is Bjarna hvort kröfur mótmælenda hefðu verið ræddar á fundinum. „Það var ekki á sérstakri dagskrá fundarins í dag. En ég var með minnisblað um stöðuna á fundinum og við röktum þróun mála á svæðinu og að því leytinu til var málið rætt, en ekki í sérstöku samhengi við mótmælin sem fyrir utan voru,“ sagði Bjarni.
Spurður nánar út í stöðuna á Gasa og afstöðu stjórnvalda segir Bjarni ríkisstjórnina leggja áherslu á tvennt. „Það sem að við vitum er að það er gríðarlega viðkvæmt og alvarlegt ástand vegna þessara átaka. Það sem við höfum lagt áherslu á eru tveir hlutir umfram annað. Það er annars vegar að það þurfi að draga úr spennunni á svæðinu vegna þess að áframhaldandi spenna mun, eins og hingað til, ógna lífi óbreyttra borgara sem verða alltaf í skotlínunni. Svo hins vegar höfum við verið að leggja áherslu á að koma mannúðaraðstoð til þeirra sem eiga um sárt að binda og höfum í því skyni verið að auka framlög okkar sem við vonumst til að verði að gagni. Við höfum líka von til þess að alþjóðasamstarfið muni skila því að leiðin með neyðaraðstoð inn á svæðið muni opnast með samtalinu og vonandi gerast hlutir í þeim efnum helst bara strax í dag.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í svipaðan streng þegar hún ræddi við mbl.is eftir fundinn. „Við fordæmum árásir á saklausa borgara og höfum gert það bæði af hálfu Hamas-samtakanna en líka þessi árás t.d. á spítalann á Gasa. Íslensk stjórnvöld tölum alltaf fyrir því að alþjóðalög og þar með mannúðarlög séu virt og það þýðir líka að það er mikilvægt að óbreyttir borgarar og innviðir verði ekki fyrir árásum þó að um einhverskonar stríðsástand eða stríð sé að ræða.“
Ítrekaði hún að íslensk stjórnvöld hefðu viðurkennt sjálfstæði Palestínu og töluðu fyrir tveggja ríkja lausn. Sagði hún jafnframt að íslensk stjórnvöld hefðu tekið undir kröfur um að opna fyrir mannúðaraðstoð inn á Gasasvæðið.