„Ekki alfarið hægt að leggja niður störf“

„Útfærsla mönnunar á hjúkrunardeildum verður ávallt að hafa öryggi og …
„Útfærsla mönnunar á hjúkrunardeildum verður ávallt að hafa öryggi og heilsu heimilismanna í fyrirrúmi,“ segir Íris mbl.is/Kristinn Magnússon

Grundarheimilin leggja upp með að skipuleggja starfsemi sína á kvennafrídaginn með þeim hætti að sem flestar konur og kvár geti tekið þátt í samstöðufundi vegna kvennaverkfalls.

Konur og kvár hafa verið hvött til þess að taka þátt í kvennaverkfalli, á kvennafrídaginn, til þess að mótmæla kynbundnu misrétti. Ljóst er að konur og kvár vinna fjölmörg störf þar sem þjónusta getur ekki með nokkru móti dottið niður, til að mynda í heilbrigðisgeiranum.

Þessar konur og kvár hafa verið titlaðar ómissandi á heimasíðu kvennafrídagsins.

Styðja konur og kvár eins og unnt er

Konur og kvár sem starfa á hjúkrunarheimilum Grundarheimilanna eru meðal ómissandi starfsmanna, en heimilin hafa sent út yfirlýsingu til sinna starfsmanna um að þau vilji styðja konur og kvár eins og unnt er í verkfallsaðgerðum, segir mannauðsstjórinn Íris Benediktsdóttir.

Grundarheimilin starfrækja tvö hjúkrunarheimili í Reykjavík og eitt í Hveragerði, auk íbúða fyrir 60 ára og eldri í Mörkinni.

Öryggi og heilsa heimilismanna í fyrirrúmi

„Útfærsla mönnunar á hjúkrunardeildum verður ávallt að hafa öryggi og heilsu heimilismanna í fyrirrúmi,“ segir Íris og bætir við:

„Eðlilega er sú þjónusta sem við veitum með þeim hætti að það er ekki alfarið hægt að leggja niður störf.“

Íris segir útfærsluna á kvennafrídaginn verða með þeim hætti að frá klukkan eitt verði konur og kvár, sem geta lagt niður störf, hvött til þess í samráði við sinn yfirmann.

Þá segir hún að biðlað hafi verið til karlkyns starfsmanna heimilanna, sem starfa á skrifstofunum, um að aðstoða við umönnun ef þeir hafa tök á.

Býðst að taka börnin sín með til vinnu

Auk þess býðst starfsmönnum heimilanna að taka börnin sín með í vinnu þennan dag, ef leik- og grunnskólar loka og aðstæður leyfa, segir Íris.

Þrátt fyrir ráðstafanir Grundarheimilanna er ljóst að einhverjar konur og kvár komi ekki til með að geta lagt niður störf.

Íris segir að reynt verði að koma til móts við þann hóp með því að varpa fundinum á alla þá skjái sem í boði eru á deildunum og til viðbótar verður reynt að gera vel við það starfsfólk sem þarf að vera eftir.

Starfsemi Landspítalans dregin niður eins og unnt er

Á Landspítalanum starfar einnig mikill fjöldi kvenna sem sinna gífurlega mikilvægum verkefnum á degi hverjum, en að sögn Andra Ólafssonar, upplýsingafulltrúa Landspítalans, dregur verkfallið fram mikilvægi starfa kvenna og stórra kvennastétta sem spítalinn getur ekki verið án.

„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera konum og kvárum sem það kjósa kleift að taka þátt í baráttudeginum,“ segir í tilkynningu sem spítalinn sendi frá sér í dag. 

 Þar kemur fram að starfsemi Landspítala verði dregin eins mikið niður og unnt er á þessum degi og mönnuð með lágmarks öryggismönnun eins og lagt er upp með í allsherjarverkfalli. 

„Ekki verða felldar niður lífsbjargandi aðgerðir og aðkallandi þjónustu en leitað verður allra leiða til að skipuleggja starfsemina þannig að konur og kvár geti tekið þátt í deginum, kjósi þau svo,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert