Fastagestir fegnir að Laugardalslaug sé opin á ný

Sundlaugargestur nýtur þess að komast aftur í pottinn.
Sundlaugargestur nýtur þess að komast aftur í pottinn. mbl.is/Hákon Pálsson

Laugardalslaug opnaði aftur klukkan 13 í dag. Laugin hefur verið lokuð sundlaugargestum frá 26. september. Þó nokkrir sundþyrstir gestir voru mættir til að taka langþráðan sundsprett. Fastagestir segjast hafa fundið mikið fyrir lokuninni og eru fegnir að komast aftur í pottinn. Kona sem sótt hefur laugina daglega í næstum 50 ár segist hafa hangið á húninum til að komast inn. 

Árni Jónsson, forstöðumaður Laugardalslaugar, sagði við blaðamann mbl.is að framkvæmdirnar hefðu gengið mjög vel. Tímaáætlunin hafi gert ráð fyrir tveggja vikna lokun en ófyrirséðar viðgerðir hafi framlengt þann tíma aðeins. 

„Við vissum ekki nákvæmlega hvað við værum að fara út í,“ segir Árni.

Tímabært viðhald

Síðasta viðhaldslokun laugarinnar var árið 2016, þá var hún síðast tæmd. Árni segir það vera heilmikla aðgerð að tæma laugina, sem tekur um þrjá daga. „Við þurftum að vissu leyti að finna upp hjólið,“ segir Árni og vísar til þess að svo langt hafi verið síðan laugin var tæmd að starfsfólkið kunni það varla lengur. „Sjö ár er svolítill tími.“

Árni segir flestar laugar loka einu sinni á ári til að þrífa. Laugardalslaugin sé í eðli sínu mjög stórt og mikið mannvirki svo viðhaldinu hafi verið frestað um eitt og eitt ár. Það hafi þó ekki getað beðið lengur. Til dæmis hafi kýraugun verið orðin svo ryðguð að það væri öryggismál að skipta um þau. „Það var ekkert annað að gera en að ráðast í þetta.“

Árni Jónsson, forstöðumaður Laugardalslaugar, er ánægður með opnunina.
Árni Jónsson, forstöðumaður Laugardalslaugar, er ánægður með opnunina. mbl.is/Hákon Pálsson

Skrítið að loka en gaman að opna aftur

Árni segir það ekki vera gaman að loka mannvirki sem iðar yfirleitt af lífi alla daga. Hann segir þó að starfsfólk hafi verið spennt að þrífa hana almennilega og allir lagst á eitt. „Það er pínu skrítið að vera með lokaða sundlaug. Standa á botninum og það er alveg mannlaust.“ 

Hann segir einstaklega gaman að opna aftur. Það sé ánægjulegt að hitta fastakúnnana aftur eftir tæpan mánuð. 

Blaðamaður mbl.is náði tali af nokkrum gestum sem undu sér vel í heitu pottunum. Gleðin var greinileg þegar fastagestir hittust eftir nokkurra vikna aðskilnað. „Velkomin,“ „langt síðan síðast“ og „gott að sjá ykkur“ voru þær kveðjur sem blaðamaður heyrði kastað gestanna á milli.

Hefur komið á hverjum degi í 46 ár

Dröfn Björgvinsdóttir var fyrsti gesturinn til að stíga fæti inn í sundlaugina eftir að hún opnaði á ný. Hún segist hafa hangið á húninum, ef svo megi að orði komast. Hún hefur vanið komur sínar daglega í Laugardalslaugina síðastliðin 46 ár. 

Dröfn segist hafa fundið mikið fyrir lokuninni. Hún skýrði kímin frá því að hún hafi verið alveg ráðvillt þegar hún þurfti að leita í aðrar laugar. „Ég prófaði tvær aðrar laugar og kunni þar hvorki að synda eða að klæða mig úr, ég var alveg ráðvillt,“ segir hún hlæjandi.

Dröfn Björgvinsdóttir er fastagestur í Laugardalslaug.
Dröfn Björgvinsdóttir er fastagestur í Laugardalslaug. mbl.is/Hákon Pálsson

„Það er yndislegt að vera komin aftur í pottinn. Það er ekki hægt að hafa það betra.“ Dröfn segist taka vel eftir breytingunum. Það sé greinilega búið að þrífa allt og mála. „Þetta er allt annað en áður.“

Hún sagði veðrið ekki skemma fyrir, en rok og rigning var þegar laugin opnaði aftur. „Það er aldrei vont veður í sundlauginni, ekki í snjó eða frosti, aldrei.“ Annar sundgestur tók undir það. „Það bítur ekkert á okkur hérna í pottinum.“ 

Fann mikið fyrir lokuninni

Annar fastagestur sagðist feginn að viðgerðin hafi ekki staðið lengur en raun bar vitni. Hann kemur í laugina á degi hverjum og vonar að það verði opið alla daga næstu árin. Hann kveðst ánægður með framkvæmdirnar. „Hann er eins og nýr þessi pottur, hann er svo flottur. Það er búið að hreinsa rennurnar og svona, þetta er flott.“

Aðspurður hvort hann hefði fundið mikið fyrir lokuninni sagðist maðurinn hafa gert það. „Ég er búinn að fitna um heil sex kíló.” Hann segir það að fara í pottinn vera það besta sem hann geri. 

mbl.is/Hákon Pálsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert