Hermann Ingi Gunnarsson, oddviti sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar og bóndi í Klauf, vandar ekki stjórnvöldum kveðjurnar en sveitastjórnin lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin hjá bændum.
Miklar kostnaðarhækkanir og hækkun stýrivaxta á liðnum tveimur árum hafa verið bændum mjög erfiðar og hefur rekstrargrundvöllur margra búa brostið.
„Ástandið er búið að vera slæmt og er alltaf að versna. Það er komin mikil uppgjöf hjá bændum og það eru nokkur bú sem eru búin að hætta mjólkurframleiðslu hér í sveitinni á þessu ári og svo skilst mér að stærsti kartöfluframleiðandinn sé líka að hugsa um að hætta vegna lélegrar afkomu, ungt fólk sem hefur fjárfest mikið í greininni og þarf að fjárfesta meira en treystir sér ekki í það því afkoman er svo léleg,“ segir Hermann Ingi í samtali við mbl.is.
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar skorar á stjórnvöld að grípa til aðgerða gagnvart þeim rekstrarerfiðleikum sem bændur standa frammi fyrir svo ekki verði hrun í greininni. Tryggja þarf að matvælaframleiðsla eflist og verði fjölbreyttari svo fæðuöryggi þjóðarinnar verði betur tryggt.
Sjá bændur ekkert ljós í myrkrinu?
„Það er ekki að sjá. Stjórnvöld hafa engan áhuga á þessum málum. Það koma engin viðbrögð frá stjórnvöldum. Ég hef ekki séð neitt sem getur aukið bjartsýni okkar. Við gerum okkur grein fyrir því að nú er kominn tími á að stjórnvöld skeri niður útgjöld til allra málaflokka og er að gera það. Ef að landbúnaðurinn er dauður þá verður hann ekkert byggður upp á stuttum tíma aftur. Fólk sem hættir byrjar ekkert aftur nema eitthvað mikið breytist. Starfsaðstæður bænda eru alveg skelfilegar,“ segir oddvitinn sem er svo sannarlega með puttann á púlsinum, verandi bóndi sjálfur.
„Maður finnur þetta sjálfur hvernig allt er að þyngjast bæði róðurinn og stemningin meðal bænda. Við sjáum ekki þessa velmegun sem hefur verið í samfélaginu á seinustu árum bæði varðandi kaup og kjör og vinnutíma. Svo tekur steininn úr þegar menn tala um fjögurra daga vinnuviku núna þegar bændur vinna 10-12 klukkutíma að jafnaði á dag. Menn eru að vanrækja fjölskylduna, hjónabandið, vináttuna og áhugamálin af því að menn eru í ati alla daga. Eins og þetta er hérna í sveitinni þá fær fólk ekki afleysingu og kemst ekkert í frí. Ég til dæmis sjálfur hef ekki farið í frí með fjölskyldunni í eitt og hálft ár.“
Hermann Ingi segir að margir bændur hafi verið að vekja athygli á stöðunni og til dæmis með skrifum á facebook. „Það eru hjón sem reka kúabú hér í sveitinni og konan sagði; af hverju á ég að fórna mínu lífi til að standa vörð um fæðuöryggi þjóðarinnar sem allir stjórnmálamenn hafa verið að tala um þegar ég get ekki greitt mér laun?
Landbúnaðarráðherra var með erindi á Atricle Circle í vikunni um fæðuöryggi á norðurslóðum. Hvaða vitleysa er í gangi. Á sama tíma eru allir að hrökklast úr greininni,“ segir Hermann.
Hermann segir að staðan sé vonlaus eins og hún er og það sé engin vilji hjá stjórnvöldum að gera nokkuð skapaðan hlut, hvorki að bæta tollvernd sem myndi hjálpa bændum gríðarlega eða auka fjármagn til landbúnaðarins.
„Við erum að fjármagna okkur á vöxtum sem ekkert fyrirtæki myndi bera þær vaxtagreiðslur sem landbúnaðurinn ber. Hlutfallið af vaxta og afborgun lána er svo ótrúlega hátt hjá landbúnaðinum. Þetta bitnar bara á launaliðnum. Það er hvergi hægt að ná þessum tekjum annarsstaðar. Landbúnaðurinn skiptir sveitarfélagið hér gríðarlega miklu máli. Þetta byggist á landbúnaði. Ekki bara okkar sveitarfélagi heldur í nærsveitunum og Akureyrarbær er með gríðarlega margt fólk innan bæjarfélagsins sem vinnur beint við landbúnaðarstörf. Þetta er því ekkert einkamál bænda. Þetta hefur gríðarlega mikil áhrif á alla landsbyggðina.“