Konur og kvár fá ekki að fara í sund á þriðjudag

Frá sundhöll Selfoss.
Frá sundhöll Selfoss. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Hvorki verður tekið á móti konum né kvárum í sundhöll Selfoss á þriðjudag, en þann dag hafa ýmis stéttarfélög og önnur samtök boðað til kvennafrídags um allt land.

Í tilkynningu á vef sveitarfélagsins Árborgar er fullyrt að þetta sé gert af öryggisástæðum, þar sem engar konur verði á vakt þennan dag.

Ekki er útskýrt hvers vegna kvárum verður meinað um aðgang að lauginni.

Gætu lokað fyrr en venjulega

Tekið er fram að karlmenn geti komið í sund, og telpur sex ára og yngri í fylgd með karlmanni 15 ára og eldri. Kvennaklefar verði lokaðir og sömuleiðis útiklefar.

Þá er varað við því að mögulega verði skertur aðgangur að lauginni almennt og einnig að lauginni gæti verið lokað fyrr en venjulega.

Loks er á það bent að sundlaug Stokkseyrar verði lokuð þennan dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert