Mótmæli við Ráðherrabústaðinn

Nokkur fjöldi mótmælenda var mættur fyrir utan Ráðherrabústaðinn í morgun þar sem ríkisstjórnin fundaði, líkt og venjulega á föstudögum. Fór fólkið fram á að ríkisstjórnin myndi fordæma aðgerðir Ísraelsmanna á Gasa.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi við mótmælendur.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi við mótmælendur. mbl.is/Hákon

Mótmælin voru skipulögð af hjálparsamtökunum Solaris, en Sema Erla Serdaroglu, forsvarsmaður þeirra, sagði við blaðamenn að mótmælendur myndu áfram mæta og mótmæla þangað til ríkisstjórnin myndi verða við kröfum þeirra.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kom út af fundinum og ræddi við mótmælendur og tók á móti undirskriftarlista með áskorun til ríkisstjórnarinnar.

„Við biðjum ykkur um að beita ykkur fyrir því að þjóðarmorðin verði stöðvuð og þið verðið að fordæma stríðsglæpi og ítrekuð fjöldamorð ísraelskra stjórnvalda,“ sagði Sema við Katrínu þegar hún afhenti henni undirskriftarlistann, en hann inniheldur tvö þúsund undirskriftir sem var safnað á tveimur sólarhringum.

Katrín tók á móti undirskriftarlista mótmælenda í morgun.
Katrín tók á móti undirskriftarlista mótmælenda í morgun. mbl.is/Klara Ósk


„Takk fyrir þetta og ég veit að það er mikill fjöldi langt umfram þennan fjölda sem styður ykkar málstað. Við höfum auðvitað fordæmt, núna síðast, árásina á spítalann á Gasa og erum búin að taka undir og styðja kröfuna um að opna aðgang fyrir neyðaraðstoð og erum búin að bæta í neyðaraðstoð til Palestínu. Þannig að við erum að stíga skref og okkar eindregna afstaða er að morð á óbreyttum borgurum eru aldrei réttlætanleg. Við tölum alltaf máli alþjóðalaga og tölum fyrir tveggja ríkja lausninni,“ sagði Katrín þegar hún tók á móti listanum.

Ítrekaði Sema þá að stjórnvöld hefðu ekki fordæmt „stríðsglæpi og fjöldamorð ísraelskra stjórnvalda“. „Þetta verður að stoppa,“ bætti hún við. Sagðist Katrín móttaka það og fara með listann inn á ríkisstjórnarfund.

Þá vísaði Sema til þess að í hópi mótmælenda væri fólk sem hefði misst fjölskyldumeðlimi í árásunum á Gasa. Kom einnig fram að í skoðun væri staða hælisleitenda frá Palestínu. „Þú ert með völdin og við trúum að þú ætlir að gera betur í þessum efnum,“ sagði Sema að lokum áður en Katrín hélt inn á fundinn.

mbl.is/Hákon

Sema ræddi við blaðamenn í kjölfarið. „Það þarf að gera enn betur, það hefur ekki verið gert nóg. Íslensk stjórnvöld hafa ekki fordæmt stríðsglæpi og fjöldamorð ísraelskra stjórnvalda og við krefjumst þess að þau geri það og við munum bara halda áfram að mæta hingað ef þess þarf,“ sagði Sema við blaðamenn þegar búið var að afhenda undirskriftarlistann.

Var hún spurð hvort Katrín hefði lofað sér einhverju. „Hún lofaði að taka þetta inn og gera grein fyrir þessu inni á fundinum og halda áfram að beita sér í þessum efnum. Við munum sjá hvað það þýðir.“

Samkvæmt blaðamanni mbl.is á staðnum mátti áætla að tæplega 200 manns hafi verið á mótmælunum í morgun.

mbl.is/Hákon
Mótmælendur fóru fram á að ríkisstjórnin myndi fordæma aðgerðir Ísraelsmanna …
Mótmælendur fóru fram á að ríkisstjórnin myndi fordæma aðgerðir Ísraelsmanna á Gasa. mbl.is/Klara Ósk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert