Tilkynnt var um þjófnað á dýrum fatnaði frá fataverslun í miðborg Reykjavíkur í dag. Lögregla hafði uppi á þjófunum og voru þeir vistaðir í klefa fyrir rannsókn málsins, að því er segir í dagbók lögreglu.
Þá var tilkynnt um bifreið sem var ekið á hús þannig að ytra lag rúðu í húsinu brotnaði. Ökumaður var farinn á brott þegar lögregla kom á staðinn.
Eins var tilkynnt um sofandi mann í afgreiðslu sundlaugar. Var hann vakinn og honum að lokum ekið á slysadeild LSH. Hann vildi þó ekki vera þar og fór.