Landsréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms yfir karlmanni á fimmtugsaldri sem dæmdur hafði verið í tveggja ára fangelsi, en þar af var 21 mánuður skilorðsbundinn fyrir meiri háttar skattalagabrot. Jafnframt er honum gert að greiða 133,6 milljónir til ríkisins, en Landsréttur lækkar þar fyrri upphæð um rúmlega 3 milljónir.
Maðurinn, Ragnar Már Svansson Michelsen, var fundinn sekur um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti fyrir félögin Smíðum allt ehf. og Chromecar ehf., en hann var í forsvari fyrir bæði félögin. Áttu brot mannsins sér stað á árunum 2012 til 2015.
Samtals var hann fundinn sekur um að hafa staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum upp á tæplega 45 milljónir.
Maðurinn neitaði sök og krafðist sýknu. Sagði hann að reikningar sem byggt væri á í ákærunni hefðu verið tilefnislausir og að þegar greiðsla hefði borist vegna þeirra hefði hann endurgreitt þá jafnharðan til greiðanda.
Maðurinn hefur áður hlotið dóm vegna skattalagabrota, en þá fékk hann 15 mánaða dóm og var gert að greiða 27 milljónir í sekt. Áður hafði hann hlotið dóm fyrir frelsissviptingu og vændiskaup.
Er dómur hans nú talinn hegningarauki við fyrri skattalagabrot, en þó sá dómur hafi fallið fyrir níu árum áttu brot mannsins, sem hann er nú dæmdur fyrir, sér stað á skilorðstíma og er hann því talinn hafa rofið skilorð.