Glæpasagnahöfundur hverfur

Ragnar sendir nú frá sér bókina Hvítalogn, en margt fleira …
Ragnar sendir nú frá sér bókina Hvítalogn, en margt fleira er í deiglunni. mbl.is/Ásdís

Efst uppi á lofti í fallegu húsi í Þingholtunum situr glæpasagnahöfundurinn Ragnar Jónasson við skriftir. Hann vinnur nú að sinni fyrstu draugasögu sem gerist í svipuðu húsi og því tilvalinn staður til að fá andann yfir sig. Blaðamaður sest á móti Ragnari og skyndilega heyrist undarlegur dynkur. „Sennilega draugur,“ segir Ragnar og brosir á sinn hægláta hátt.

Ragnar er með mörg handrit í vinnslu en eitt er þó klárt og innbundið og á leiðinni í hillur bókabúða í næstu viku. Það er fimmtánda glæpasaga hans, Hvítalogn, sem er önnur í röð þríleiksins um afbrotafræðinginn Helga. En fleira er á döfinni hjá Ragnari. Leikrit og ljóð; kvikmyndir og sjónvarpsseríur; ferðalög og glæpasagnahátíðir. Það er ekki dauð stund hjá manninum sem upphugsar nýtt morð á hverju ári.

Með endalausar hugmyndir

Við byrjum á nýjustu bókinni, Hvítalogni, en fyrsta bókin í þríleiknum er Hvítidauði.

„Hvítalogn er um glæpasagnahöfund sem hverfur, en ég er búinn að vera með þessa bók í vinnslu í mörg ár. Ég er að skrifa um þennan heim sem ég þekki; bókaheiminn og hvernig er að vera rithöfundur. Þessi ímyndaði rithöfundur er frægasti glæpasagnahöfundur þjóðarinnar; kona um sjötugt. Hún hverfur svo af yfirborði jarðar og það er ungur bókaormur sem fer að leita að henni,“ segir hann og viðurkennir að hann noti eitthvað úr eigin lífi í báðar þessar persónur.

„Sagan er óður til bókaheimsins sem ég elska, og ég held að það mætti kalla þessa bók ráðgátu fremur en spennusögu,“ segir Ragnar og segist aðeins flakka fram og til baka í tíma. Eins tengist þessi heimur Huldu, persónu úr öðrum bókum Ragnars. Von er á þriðju bókinni á næsta ári en Ragnar segist vera kominn langt með hana nú þegar.

„Það er ágætt, með svona þríleik, að hafa fengið tækifæri til að skrifa aðra og þriðju bókina nokkurn veginn samtímis, til þess að ná fram þeirri heildarmynd sem mig langaði til að hafa á syrpunni.

Þú hugsar eins og skákmaður, marga leiki fram í tímann?

„Já, að einhverju leyti, en að öðru leyti leyfi ég sögunum svolítið að koma til mín, og finn það á mér hvaða verkefni mig langar að klára næst, en það eru yfirleitt mörg skjöl opin í tölvunni á sama tíma. Í Hvítalogni er ég dálítið að fjalla um ritstörf og bækur, af hverju maður er að skrifa.“

Af hverju ertu að skrifa?

„Af því ég get bara ekki annað. Mér líður best þegar ég næ að skapa eitthvað á hverjum degi, og það skiptir ekki öllu máli hvað, það sem kallar á mig hverju sinni. Þegar ég fæ nýjar hugmyndir skrifa ég þær hjá mér og reyni svo að vinna úr þeim smátt og smátt. Núna sit ég hér og skrifa draugasögu, af því að ég hafði í raun aldrei gert það áður og mig langaði til að prófa það. Ég er líka að skrifa sakamálasögu sem gerist í Bretlandi árið 1935 og er býsna ólík þessum hefðbundnu norrænu glæpasögum. Svo er ég sem sagt að reyna að klára þriðju bókina um Helga.“

Þú ert aldrei uppiskroppa með hugmyndir?

„Nei, síður en svo. Allt of mikið af hugmyndum og mér finnst fátt skemmtilegra en að reyna að láta þær verða að veruleika.“

Mamma skrifaði endurminningar

Hvítalogn er tileinkuð móður Ragnars, Katrínu Guðjónsdóttur, sem lést í sumar. Katrín fékk alzheimer aðeins 64 ára gömul og lést níu árum síðar, 73 ára.

„Mamma var yndisleg og það er mjög leitt að geta ekki deilt lengur með henni öllu sem er að gerast,“ segir Ragnar og segir þau hafa verið náin.

„Það var hrikalega erfitt að missa hana og horfa upp á hana hverfa inn í þennan skelfilega sjúkdóm. Eitt af því sem ég lærði var að njóta alltaf hvers augnabliks. Jafnvel þótt hún væri verri í dag en í gær, þá var hún allavega með okkur,“ segir Ragnar.

„Áður en við týndum henni alveg skrifaði hún sínar endurminningar. Ekki í samfelldu formi, heldur minningabrot, sem er frábært að eiga núna. Við lesum þetta fyrir dæturnar og rifjum upp sögur frá því að hún var barn, unglingur og ung kona,“ segir Ragnar og segir móður sína hafa haft sagnagáfu. Hann á því ekki langt að sækja hæfileikana, en þeir koma þó úr fleiri áttum.

Ragnar er hér lítill drengur með mömmu sinni Katrínu Guðjónsdóttur, …
Ragnar er hér lítill drengur með mömmu sinni Katrínu Guðjónsdóttur, sem lést í sumar.

„Allt sem maður upplifir getur auðvitað endað í bók, með einum eða öðrum hætti,“ segir Ragnar og segir ekkert útilokað að hann skrifi síðar meir bók sem tengist móður hans og hennar sjúkdómi.

„Hver hugmynd þarf að bíða í eitt, tvö ár eða lengur. Og tekur oft breytingum á leiðinni.“

Var nokkuð „starstruck“

Dimma, fyrsta bókin í þríleik Ragnars um lögreglukonuna Huldu, verður nú að sjónvarpsseríu. Tökur hefjast fyrir jól og ekki ómerkari leikkona en Lena Olin leikur Huldu. Leikstjórinn þekkti og eiginmaður Lenu Lasse Hallström leikstýrir.

„Þættirnir The Darkness verða sex og eru á ensku. Það er verið að fylla í öll hlutverk núna og vonandi verða þættirnir sýndir næsta haust. Það er algjör draumur að sjá þetta gerast, en þetta er fyrsta sjónvarpsverkefnið sem kemst svona langt. Ég hitti þau Lenu og Lasse í síðustu viku en þau voru hér í leikprufum. Þetta er fyrsta glæpaserían sem Lena leikur í og þau voru virkilega spennt yfir þessu verkefni,“ segir Ragnar og segir íslenska leikara leika mörg stór hlutverk sömuleiðis og tökur munu fara fram að mestu í Reykjavík.

Lena Olin og Lasse Hallström hittu Ragnar nýlega en tökur …
Lena Olin og Lasse Hallström hittu Ragnar nýlega en tökur eru að hefjast á The Darkness.

„Ég hafði aldrei hitt þau áður og var nokkuð „starstruck, segir Ragnar og brosir.

„Það er ótrúlegt að stjörnur eins og þau séu að fara að leika í og leikstýra seríu eftir bók sem ég sat heima og skrifaði fyrir mörgum árum. Það er mjög óraunverulegt,“ segir Ragnar og segist aldrei hafa dreymt um að nokkuð þessu líkt myndi gerast.

„Þetta eru algjör forréttindi og nú ætla ég að fylgjast með og njóta,“ segir hann en Ragnar er einn af framleiðendum seríunnar.

Fleiri hafa áhuga á að búa til efni fyrir sjónvarp eða kvikmyndir eftir sögum Ragnars og er fyrirhugað að búa til bíómynd eftir bókinni Úti. Það er framleiðslufyrirtæki Ridleys Scotts sem hyggst búa til þá mynd.

„Það er í vinnslu. Ég er ekki búinn að hitta Ridley Scott en bíð eftir því boði,“ segir hann og brosir.

„Þá er Warner að vinna að þáttum um Ara Þór, upp úr Snjóblindu og fleiri bókum úr þeirri seríu. Svo er áhugi á að gera þætti byggða á bókinni okkar Katrínar,“ segir Ragnar dularfullur og segist ekki mega segja meir um það að sinni.

„Þetta er allt dálítið yfirþyrmandi.“

Ítarlegt viðtal er við Ragnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert