Grænlenskur prófessor vann til verðlauna

Minik Thorleif Rosing prófessor tók á móti verðlaununum í kvöld.
Minik Thorleif Rosing prófessor tók á móti verðlaununum í kvöld. AFP

Grænlenski jarðfræðingurinn Minik Thorleif Rosing vann þriðju Frederik Paulsen-verðlaunin.

Ver þetta tilkynnt á þingi Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, í gær. Verðlaunaféð nemur 100.000 evrum eða um 14,7 milljónum króna og er ætlað til þróunar á jökulbergsdufti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hringborðinu.

Rosing hlýtur verðlaunin vegna verkefnis sem minnkar styrk koltvísýrings (CO2) í andrúmsloftinu, eykur fæðuöryggi í heiminum og getur styrkt mjög efnahagsþróun Grænlands.

„Jökulbergsduftið býður upp á lausn við fjölmörgum vandamálum sem blasa við heiminum. Duftið myndast úr berggrunni Grænlands við hreyfingu á jökulbreiðunni, og er ríkt af náttúrulegum steinefnum. Þegar veðrun á sér stað losna steinefnin frá berginu og binda koltvísýring. Þegar jökulbergsduftið er borið á jarðveg á hitabeltissvæðum eykur það uppskerur og dregur því úr loftslagsbreytingum af völdum gróðurhúsalofttegunda. Þá dregur Jökulbergsduftið úr súrnun sjávar. Verkefnið býður upp á skalanlega lausn sem styður einnig við efnahagsþróun á Grænlandi,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert