Gullhúðunin „hefur verið vandamál“

Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra.
Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Utanríkisráðherra segir mikilvægt að gera sér grein fyrir því hversu algengur vandi gullhúðun reglugerða er. Í huga ráðherra snýst lausnin á vandanum um að annars vegar gera sér grein fyrir stærri tilvikum af þessu tagi og hins vegar að horfa fram á veginn.

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hyggst halda áfram með vinnu fyrirrennara síns, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, um að skipa starfshóp til að meta umfang gullhúðunar EES-gerða og leggja til tillögur að úrbótum.

Talsvert hefur verið fjallað um gullhúðun reglugerða að undanförnu, en með því er átt við það þegar stjórnvöld herða á reglum EES-gerða eða bæta við heimasmíðuðum ákvæðum í innleiðingarfrumvörp sem ekki leiða af skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum. 

Gríðarstórt verkefni

„Ég ætla að halda þessari vinnu áfram, en það er mjög auðvelt að gleyma sér í mörg ár í að grisja og kemba hverja einustu gerð síðustu áratuga. Ég held að við ættum að reyna að finna út hvar tíma okkar er best varið í því efni og síðan að horfa til framtíðar sömuleiðis. En það er samt mikilvægt að gera sér grein fyrir því hversu algengur vandi þetta er,“ segir Bjarni.

Hann segir verkefnið gríðarstórt og erfitt að greiða úr eða greina hverja einustu innleiðingu til að átta sig á hvar vikið var frá upphaflegum texta, enda hefur EES-samningurinn verið í gildi hér á landi frá árinu 1994.

Nauðsynlegt að tryggja gegnsæi 

Bjarni segir verkefnið því annars vegar snúa að því að gera sér grein fyrir stærri tilvikum af þessu tagi og hins vegar að horft verði fram veginn og gegnsæi tryggt í innleiðingarferli reglugerða í framtíðinni.

Hann segir nauðsynlegt að tryggja að innleiðingarferlið eigi sér ekki stað með þeim hætti að það sé látið að því liggja, þegar gerðir eru notaðar í framkvæmd hér á landi, að um hreinar innleiðingar sé að ræða. 

„Þegar það er einmitt búið að bæta við þáttum sem hafa ekki bein tengsl við Evrópugerðina heldur er verið að nota ferðina,“ segir Bjarni og bætir við að um sé að ræða gríðarlega mikilvægt gegnsæismál gagnvart þinginu, að þarna sé gerður skýr greinarmunur á milli.

Greinarmunur á hreinni Evrópureglugerð og gullhúðun

Telur þú þetta vera vandamál? Að það sé verið að gullhúða reglugerðir?

„Ég held því miður að við höfum of oft séð frumvörp þar sem til dæmis segir að meginefni frumvarpsins sé innleiðing á Evrópureglugerð, en ekki mikið lagt á sig til að gera greinarmun á því sem er hrein Evrópugerðarinnleiðing og því sem fylgdi með, fyrst verið var að hrófla við viðkomandi löggjöf.

Þetta hefur verið vandamál, þetta er mjög mikilvægt gegnsæismál og er í raun uppsafnað tilefni af því að ráðherra lagði til að ráðist yrði í þessa vinnu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert