Ísland til fyrirmyndar í flugmálum

Flugiðnaðurinn var í brennidepli á málstofu Isavia sem fram fór …
Flugiðnaðurinn var í brennidepli á málstofu Isavia sem fram fór á Reykjavík Edition í morgun. mbl.is/ Hákon Pálsson

Flugiðnaðurinn á norðurslóðum var í brennidepli á málstofu Isavia sem haldin var sem hluti af þingi Hringborðs norðurslóða á Reykjavík Edition í gærmorgun. Þá var yfirskrift málstofunnar flug í norðri og áherslan lögð á flugiðnaðinn í heimskautinu.

Kjartan Briem, framkvæmdastjóri Isavia ANS, og Franklin McIntosh, aðstoðarrekstrarstjóri flugmálastjórnar Bandaríkjanna, FAA, héldu erindið í sameiningu og sögðu samvinnu á milli landanna það allra mikilvægasta þegar kemur að flugmálum í heiminum.

Löng flugsaga hér á landi

„Hér erum við helst að tala um hvernig flugiðnaðurinn er að nýtast fyrir heimskautið, hvernig við vinnum saman til þess að bæta aðstæður fyrir flug og hvaða leiðir við erum að fara til að passa upp á umhverfið, hvernig flugiðnaðurinn er að þróast og hverju má búast við í framtíðinni,“ sagði Kjartan í samtali við blaðamann mbl.is og bætti við að Ísland stæði sig vel þegar kæmi að flugmálum almennt.

„Flug hefur fylgt okkur mjög lengi og í raun og veru var einn af fyrstu samningum sem við gerðum sem lýðveldi við Alþjóðaflugmálastofnunina, ICAO, um flugleiðsögu á Norður-Atlantshafinu. Við höfum alla tíð verið mjög áberandi í því hlutverki og reyndar stolt myndi ég segja af þeirri þjónustu sem við veitum.“

Erum á margan hátt leiðandi

Á málstofunni var meðal annars rætt um hvernig mismunandi þjónustuveitendur um allan heim eru að vinna saman til þess að samhæfa allar aðgerðir og ferla svo flugið geti gengið sem snuðrulausast fyrir sig.

„Það er mjög flókin og marghæfð vél á bak við allt þetta, að flugið fljúgi svona þægilega í gegnum heiminn,“ sagði Kjartan og svaraði því aðspurður hvar Ísland stæði samanborið við önnur lönd að hér á landi væri fólk sem byggi yfir mikilli þekkingu. 

„Við höfum náttúrulega langa sögu, það er mjög hæft fólk sem er að vinna í þessum geira hjá okkur og við erum á margan hátt leiðandi hérna á Norður-Atlantshafinu þar sem það eru mörg ríki sem koma að því en við erum í stóru hlutverki í þeirri samvinnu og oft fyrst með nýjungar sem hjálpa til við að auðvelda flugvélunum að fljúga, velja réttar hæðir og líka bara einfalda ferla þannig að það sé auðveldara að fljúga í gegn.“

Kom fram á málstofunni að norðurslóðir séu mikilvæg tenging við …
Kom fram á málstofunni að norðurslóðir séu mikilvæg tenging við aðra staði í heiminum. mbl.is/Hákon Pálsson

Isavia stefnir á að verða kolefnishlutlaust

Kom fram að Bandaríkin líti til Íslands og taki það til fyrirmyndar hvað varðar öryggismál í flugi, til að mynda þegar eldgos eiga sér stað en hér á landi fara reglulega fram æfingar þar sem viðbrögð við byrjun á gosi eru æfð og þá hvaða ráðstafanir þarf að gera. 

Þá var einnig rætt um vistvæna framtíð í háloftunum en með bættri flugvélatækni eru flugvélar í dag farnar að eyða minna eldsneyti á hvern kílómetra. Einnig er ávallt verið að skoða nýjar leiðir til að knýja vélarnar í háloftunum, meðal annars með rafmagni, og hvernig minnka megi biðtíma flugvéla á flugbrautunum til að minnka mengun.

Tók Kjartan þá fram í kjölfarið að Isavia stefni að því að verða kolefnishlutlaust árið 2030 sem sé stórt og metnaðarfullt markmið.

Alþjóðleg samvinna mikilvægust

Í samtali við blaðamann sagði McIntosh að mikilvægasta verkefnið væri að ræða flugöryggi í heiminum almennt og þá sérstaklega alþjóðlega samvinnu. 

„Við vinnum alltaf með nágrannaríkjum okkar til að samræma stefnur okkar og sjá til þess að stöðugt sé verið að setja markið hærra þegar kemur að öryggismálum. Við viljum vera fremst á meðal annarra þjóða til að tryggja að allir hafi sameiginlega þjónustu og öryggi.“

Tók McIntosh fram að norðurslóðir séu einkar mikilvægar þegar kemur að tengingu við Bandaríkin og önnur lönd víðs vegar í heiminum. Því sé þarft að flug á þessar slóðir haldi áfram að dafna og aukast svo koma megi nauðsynjum eins og mat og öðrum vörum þangað.

„Það er nauðsynlegt að þessi hluti heimsins hafi aðgang að flugi og það er okkar að tengja samfélögin saman með flugleiðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert