Mál hæstaréttarlögmanns, sem grunaður er um árás gegn öðrum manni, er ekki komið á borð Lögmannafélags Íslands.
Þetta staðfestir Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Lögmannafélags Íslands, í samtali við mbl.is. Greint var frá því í gær að lögmaðurinn ætti yfir höfði sér kæru vegna málsins, að því er heimildir mbl.is herma.
Maðurinn er grunaður um að hafa veist að öðrum manni, í verslun sem er í eigu fórnarlambsins í miðborg Reykjavíkur, og veitt honum áverka. Lögmaðurinn er meðeigandi einnar stærstu lögmannsstofu landsins og á sæti í stjórnum nokkurra fyrirtækja.
„Ég þekki ekki til málsins nema það sem ég hef lesið í fjölmiðlum og ég veit ekki hvað er satt né rétt í þeim fréttaflutningi,“ segir Sigurður og bætir við:
„Þarna er fréttaflutningur um meint ofbeldisbrot. Slík mál eru kláruð í réttarvörslukerfinu og ég geri ráð fyrir að það fái úrlausn þar, ef til kemur,“ segir Sigurður að lokum.